Innlent

Foreldrar íhuga að leita réttar síns vegna hoppukastalaslyss

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá vettvangi slyssins. 
Frá vettvangi slyssins.  Vísir/Lillý

Foreldrar barna sem slösuðust í hoppukastala á Akureyri síðasta fimmtudag íhuga að leita réttar síns og fara fram á skaðabætur, samkvæmt heimildum fréttastofu. Sjötíu börn voru í kastalanum þegar hann tókst á loft. Þar af var eitt þeirra flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur og sex send til aðhlynningar á sjúkrahús á Akyreyri. Eitt barn slasaðist alvarlega og er haldið sofandi á sjúkrahúsi. 

Tildrög slyssins eru enn til rannsóknar og hafa skýrslur verið teknar af viðstöddum og þeim sem báru ábyrgð á umsjón og öryggi kastalans, en þeir eru með réttarstöðu grunaðra í málinu, samkvæmt heimildum fréttastofu. Þeir eru þó ekki grunaðir um saknæmt athæfi.

Slysið varð þegar sterk vindhviða feykti kastalanum í loft upp. Vindhviðan var það sterk að hún reif með sér stórar, allt að fjörutíu sentímetrar járnfestingar, sem áttu að halda hoppukastalanum niðri. Óheimilt er að starfrækja hoppukastala í sterkum vindi. 

Eigandinn hefur sagt að kastalinn verði ekki settur upp að nýju á Akureyri en sams konar kastali er við Perluna í Reykjavík. Eigandinn segir að aðstæður séu aðrar í Reykjavík, og að þar sé sérstakur vindmælir við kastalann.


Tengdar fréttir

Einhverju hafi verið ábótavant við festingar

Verkefnastjóri hjá Miðstöð slysavarna barna segir alveg skýrt að eitthvað hafi verið ábótavant við festingar eða frágang þegar hoppukastali tókst á loft á Akureyri í fyrradag. Það vanti skýrari reglur í kring um starfsleyfi slíkra tækja hér á landi.

Engir full­orðnir starfs­menn við Skrímslið: „Það greip um sig al­ger ringul­reið“

Foreldri sem varð vitni að því þegar hoppukastali, Skrímslið svokallaða, tókst á loft á Akureyri í dag segir að mikil ringulreið hafi gripið um sig meðal foreldra þegar vindhviða feykti kastalanum á loft. Hann segist hissa á því að enginn fullorðinn starfsmaður hafi verið á staðnum og segir unglingsstráka um 15 ára aldur hafa verið einu starfsmennina á staðnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×