Erlent

Lá dáin í íbúð sinni í rúm þrjú ár

Samúel Karl Ólason skrifar
Laura Winham var 38 ára gömul þegar hún dó árið 2017. Lík hennar fannst ekki fyrr en í maí 2021.
Laura Winham var 38 ára gömul þegar hún dó árið 2017. Lík hennar fannst ekki fyrr en í maí 2021. Hudgell Solicitors

Bresk kona sem átti við mikil geðræn vandamál að stríða fannst í íbúð hennar rúmum þremur árum eftir að hún dó. Fjölskylda hennar kennir heilbrigðiskerfinu um og segir kerfið hafa brugðist henni. Enginn hafi fylgst með henni þrátt fyrir veikindi hennar.

Laura Winham er talin hafa dáið í nóvember 2017, þá 38 ára gömul. Bróðir hennar fann hana látna í maí 2021 og var lík hennar þá orðið nánast eins og múmía eða beinagrind, samkvæmt frétt Sky News.

Winham þjáðist af geðklofa og bjó í félagslegu húsnæði í Woking í Surrey. Fjölskyldumeðlimir hennar segja að hún hafi slitið á öll samskipti við þau því hún hafi verið sannfærð um að þau ætluðu að skaða hana.

Lögregluþjónar heimsóttu hana í október 2017, sem var líklegast í síðasta sinn sem hún sást á lífi, samkvæmt frétt BBC. Þá skrifuðu lögregluþjónar í skýrslu til félagsmálayfirvalda að Winham væri að vanrækja sig. Hún ætti ekki mat og vissi ekki hvernig hún gæti fengið hjálp.

Skömmu eftir þessa heimsókn hætti Winham að skrifa í dagatal sitt en eitt af því síðasta sem hún skrifaði þar var: „Ég þarf hjálp“. Leiga hennar var greidd sjálfkrafa af bótum hennar en gasið var tekið af íbúðinni í janúar 2019.

Lögmenn fjölskyldu Winham segja engan hafa farið í heimsókn til hennar á þessum árum og engan hafa fylgst með henni.

BBC hefur eftir Nicky, systur hennar, að þrátt fyrir viðvörunarmerki um versnandi heilsu hennar virðist sem fólk hafi bara litið undan.

„Hún var yfirgefin og skilin eftir til að deyja,“ sagði Nicky. Hún sagði erfitt að ímynda sér hvernig systir sín hefði lifað síðustu árin. Hún hefði ekki kunnað að biðja um hjálp og enginn hafi hugsað um hana.

Talsmaður yfirvalda í Surrey sagði BBC að málið væri hið sorglegasta en í senn væri það flókið. Hver angi þess yrði rannsakaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×