Innlent

Arnar Már skipaður nýr ferða­mála­stjóri

Atli Ísleifsson skrifar
Arnar Már Ólafsson.
Arnar Már Ólafsson. Stjr

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur skipað Arnar Má Ólafsson til að gegna embætti ferðamálastjóra. Hann tekur við stöðunni af Skarphéðni Berg Steinarssyni.

Á vef stjórnarráðsins segir að Arnar Már hafi áratuga rekstrar- og stjórnunarreynslu í ferðaþjónustu og hafi síðast starfað sem leiðtogi markaðsmála hjá Icelandia. Hann sé með meistaragráðu á sviði alþjóðamarkaðs- og ferðamálafræða frá Université de Savoie.

„Áður starfaði hann um árabil hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og Iceland Rovers ásamt því að hafa starfað sem leiðsögumaður í tugi ára. Þá hefur Arnar starfað sem kennari í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, lektor og brautarstjóri ferðamálafræði við Háskólann á Akureyri og forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands.

Umsækjendur um starfið voru 14 en einn umsækjenda dró umsókn sína til baka. Skipuð var hæfnisnefnd sem mat tvo umsækjendur hæfasta til að gegna embætti ferðamálastjóra. Að loknum ráðningarviðtölum ráðherra var það heildstætt mat að Arnar Már Ólafsson stæði öðrum umsækjendum framar, sakir umfangsmeiri reynslu af árangursríkri stjórnun, hagnýtrar og fjölbreyttrar reynslu á sviði ferðamála, yfirgripsmikillar þekkingar og menntunar ásamt skýrrar sýnar á stefnumótandi verkefni Ferðamálastofu.

Skipunin er til fimm ára samkvæmt meginreglu um skipan forstöðumanna ríkisstofnana. Arnar Már mun taka við embætti ferðamálastjóra hinn 1. mars 2023 en fram að því mun Elías Bj. Gíslason verða starfandi ferðamálastjóri,“ segir á vef stjórnarráðsins.


Tengdar fréttir

Þrettán vilja verða ferða­mála­stjóri

Alls bárust fjórtán umsóknir um embætti ferðamálastjóra. Einn dró umsókn sína til baka en umsóknarfresturinn rann út 10. nóvember síðastliðinn. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×