Fótbolti

Real í undanúrslit eftir sigur á Atletico í framlengdum leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Rodrygo fagnar hér jöfnunarmarki sínu í leiknum í kvöld.
Rodrygo fagnar hér jöfnunarmarki sínu í leiknum í kvöld. Vísir/Getty

Real Madrid er komið áfram í undanúrslit spænska konungsbikarsins í knattspyrnu eftir 3-1 sigur á nágrönnum sínum í Atletico í framlengdum leik í kvöld.

Það er alltaf spenningur fyrir alvöru grannaslagi og hvað þá þegar nágrannaliðin frá Madríd mætast. Fyrir leikinn í dag bárust fréttir af miður skemmtilegu athæfi nokkurra stuðningsmanna Atletico Madrid sem hengt höfðu dúkku í búning Vinicius Jr. fram af brú.

Það var því búist við hörkuleik í kvöld og fjörið var heldur betur mikið. Gestirnir í Atletico byrjuðu betur og spænski landsliðsmaðurinn Alvaro Morata kom þeim í 1-0 á 9.mínútu þegar hann skoraði eftir sendingu Nahuel Molina.

Staðan í hálfleik var 1-0 en Real tókst að jafna metin þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Brasilíumaðurinn Rodrygo skoraði þá eftir sendingu frá hinum síunga Luka Modric.

Staðan var 1-1 að loknum venjulegum leiktíma og því varð að framlengja. Þar voru heimamenn sterkari.

Karim Benzema kom Real í 2-1 á 104.mínútu eftir sendingu Vinicius Jr. og brasilíumaðurinn rak svo smiðshöggið þegar hann skoraði þriðja mark Real í uppbótartíma framlengingarinnar.

Real er því komið í undanúrslitin og verða í pottinum ásamt Barcelona, Osasona og Athletic Bilbao sem lagði Valencia 3-1 á útivelli í kvöld.

Dregið verður í undanúrslit á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×