Fótbolti

Gunnhildur Yrsa komin heim í Stjörnuna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er gengin til liðs við Stjörnuna.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er gengin til liðs við Stjörnuna. Vísir/Jónína

Landsliðskonan margreynda Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er gengin til liðs við Stjörnuna í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Gunnhildur Yrsa kemur til Stjörnunnar frá bandaríska liðinu Orlando Pride.

Tilkynnt er um félagaskiptin á Facebook síðu Stjörnunnar. Koma Gunnhildar Yrsu er gríðarlegur styrkur fyrir Stjörnuna sem lenti í öðru sæti Bestu deildar kvenna síðastliðið sumar og tryggði sér þar með sæti í undankeppni Meistaradeildarinnar.

Gunnhildur Yrsa lék 119 leiki fyrir Stjörnuna á árunum 2003-2012 en hélt þá í atvinnumennsku. Hún hefur leikið erlendis allar götur síðan þá fyrir utan hluta sumarsins 2020 þegar hann lék nokkra leiki á láni hjá Val.

„Eftir 11 ára fjarveru er algjör draumur að vera komin aftur heim í Garðabæinn. Stjörnuhjartað hefur aldrei verið stærra. Leikmannhópurinn er einstaklega spennandi og það sem Kristján og Andri eru búnir að byggja upp hérna er magnað, ég er spennt fyrir því að byrja og fá tækifærið til þess að spila með öllum þessum frábæru leikmönnum. Áfram Stjarnan, forever and always,“ segir Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í tilkynningu Stjörnunnar.

Hún hefur leikið með liðum Arna-Björnar, Grand Bodö, Stabæk og Valerenga í Noregi, Utah Royals og Orlando Pride í bandarísku deildinni auk þess sem hún lék með liði Adeleide United á láni árin 2018 og 2019.

Gunnhildur Yrsa er ein af reyndustu landsliðskonum Íslands en hún hefur leikið 96 A-landsleiki og skorað í þeim 14 mörk.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.