Lífið

Hunda­bíói af­lýst vegna leyfis­vand­ræða

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ekkert verður úr fyrirhuguðu hundabíói Smárabíós.
Ekkert verður úr fyrirhuguðu hundabíói Smárabíós. Vísir/Vilhelm

Bíósýningu þar sem gestir máttu taka hundana sína með hefur verið aflýst. Ekki tókst að fá leyfi eða undanþágu frá reglum sem banna hunda í kvikmyndahúsum. 

Smárabíó ætlaði að bjóða gestum að mæta með hundinn sinn í bíó sunnudaginn næsta á myndina Titina. Búið var að auglýsa sýninguna og sækja um leyfi hjá heilbrigðiseftirliti Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs og Seltjarnarness. 

Í dag þurfti að aflýsa sýningunni þar sem ekki tókst að fá leyfi frá heilbrigðiseftirlitinu eða undanþágu frá reglum sem banna hunda í kvikmyndahúsum. 

Þeir sem höfðu keypt miða og ætluðu sér að mæta með hundinn sinn er boðið upp á endurgreiðslu en fólk er samt hvatt til þess að koma að horfa á myndina, bara án hundanna.

Í færslu Smárabíós þar sem sagt er frá þessu hafa einhverjir bent á að það hefði líklegast verið sniðugra að fá leyfið áður en sýningin yrði auglýst. Smárabíó svarar því og segist hafa búist við því að fá undanþáguna. 

„Við bjuggumst ekki við að við fengjum ekki sömu undanþágu og kvikmyndahúsin í Reykjavík sem sem hafa verið með svona sýningar,“ segir í svarinu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×