Innlent

Harma and­lát sjúk­lings á geð­deild Land­spítala

Bjarki Sigurðsson skrifar
Runólfur Pálsson er forstjóri Landspítalans.
Runólfur Pálsson er forstjóri Landspítalans. Vísir/Vilhelm

Landspítalinn harmar andlát sjúklings sem lést á geðdeild spítalans í ágúst árið 2021. Rannsókn á andlátinu hefur leitt í ljós ýmsa annmarka á þjónustu spítalans. Aðstæður á deildinni voru ófullnægjandi fyrir starfsfólk á þeim tíma sem atvikið átti sér stað. 

Í tilkynningu á vef Landspítalans er rætt um atvik sem átti sér stað á geðdeild spítalans í ágúst árið 2021. Þá lést kona á sextugsaldri sem lá inni á deildinni. Hjúkrunarfræðingurinn Steina Árnadóttir hefur verið ákærð fyrir manndráp í opinberu starfi vegna málsins en hún er sökuð um að hafa reynt að þröngva ofan í sjúklinginn næringadrykk. Talið er að sjúklingurinn hafi kafnað á drykknum. 

„Landspítali tilkynnti andlátið strax til lögreglu og í framhaldinu til Embættis landlæknis. Í kjölfar rannsóknar lögreglu var ákæra gefin út á hendur starfsmanni spítalans. Það er á margan hátt erfitt og flókið fyrir Landspítala að tjá sig um mál sem þessi en forsvarsmenn spítalans telja rétt að veita eins miklar upplýsingar og hægt er á hverjum tíma,“ segir í tilkynningunni. 

Eftir atvikið hafa ýmsir annmarkar í þjónustunni orðið starfsfólki spítalans ljósir. Það á meðal annars við mönnun innan geðþjónustunnar og þætti sem snúa að þverfaglegri samvinnu innan spítalans í þjónustu sinni við einstaklinga með geðsjúkdóma. 

„Spítalinn harmar andlát sjúklingsins og vottar aðstandendum samúð sína. Þá þykir spítalanum miður að hafa brugðist því starfsfólki sem starfaði við ófullnægjandi aðstæður á þessum tíma,“ segir í tilkynningunni.

Spítalinn réðst í umbætur innan geðþjónustunnar eftir atvikið, heilbrigðismenntuðu starfsfólki á vöktum var fjölgað, innra skipulagi þjónustunnar breytt og stoðþjónusta við deildir aukin. Með umbótum er reynt að tryggja að sá lærdómur sem má draga af atvikinu leiði til aukins öryggis fyrir sjúklinga og starfsfólk. 

„Það er mat okkar að þær umbætur sem orðið hafa á starfsemi geðþjónustunnar séu til þess fallnar að draga verulega úr hættu á alvarlegum atvikum og auka öryggi sjúklinga. Umfram allt er hugur spítalans hjá þeim sem eiga um sárt að binda vegna andlátsins,“ segir í tilkynningunni. 


Tengdar fréttir

Koma verði í veg fyrir að heilbrigðisstarfsmenn séu sóttir til saka

Þrjú læknafélög telja ótækt að heilbrigðisstarfsmenn séu sóttir til saka þegar upp koma alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu, í stað þess að einblína á kerfislægar brotalamir. Engar úrbætur hafi orðið þrátt fyrir tillögur og ábendingar síðustu ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×