Innlent

Vilja loka hús­næði sem hýsir hælis­leit­endur

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar

Vinnumálastofnun hefur hýst hælisleitendur í Grindavík þrátt fyrir mótmæli bæjaryfirvalda. Bæjarráð hefur beint því til skipulags- og byggingarfulltrúa að kanna hvort bærinn geti lokað húsnæðinu.

Bæjarráð Grindavíkur samþykkti á fundi sínum fyrir tveimur dögum að mótmæla ákvörðun Vinnumálastofnunar að hýsa umsækjendur um alþjóðlega vernd í bænum.

Þá segir einnig í ályktun bæjarráðs:

Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að óska upplýsinga um málið frá Vinnumálastofnun og húseiganda og skoða í kjölfarið hvort tilefni geti verið til að beita heimildum skv. 55. og 56. gr. laga um mannvirki sem fjalla um stöðvun framkvæmda eða lokun mannvirkis eða ákvæðum 54. gr. skipulagslaga sem fjalla um heimildir til þess að beita dagsektum.

Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs, segir bæinn sinna sínum lögbundnu skyldum.

„Nei, deilan um starfsemi hússins er eitt. En síðan er það hitt að hér er komið fólk og það er búið að skrá það á póstnúmerið 240, ótilgreint í Grindavík. Það er náttúrulega bara okkar skylda sem sveitarfélag, bæði félagþjónusta og annað þá er þetta fólk komið svolítið í okkar umsjá sæki það eftir aðstoð og það höfum við gert.“

Siggeir F. Ævarsson, kennari og íbúi í Grindavík skilur ekki hvað bærinn ætlar sér í málinu.

„Ég hafði nú fyrir því að fletta upp reglugerðinni og þeir vísa þarna í eitthvað um að stoppa starfsemi og fleira þar eftir götum. Þannig að ef þeir stoppa starfsemina hvað þá, þeir ætla ekki í útburð samt að stoppa þetta. Eg held það væri bara gaman að vita nákvæmlega hvað þeim gengur til og hvernig þeir sjá fyrir sé að lenda þessu máli.“

Siggeir áttar sig ekki alveg á hvaða vegferð bæjaryfirvöld eru.

Vinnumálastofnun mun funda með bæjaryfirvöldum í fyrramálið en forstjóri stofnunarinnar, Unnur Sverrisdóttir, vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×