Fótbolti

Potter: Að stýra Chelsea er erfiðasta starfið í fótboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Graham Potter og félagar í Chelsea áttu erfiða vikur í byrjun nýs árs.
Graham Potter og félagar í Chelsea áttu erfiða vikur í byrjun nýs árs. Getty/Marc Atkins

Graham Potter hefur ekki byrjað vel sem knattspyrnustjóri Chelsea en fyrstu vikurnar eftir HM í Katar hafa verið einstaklega erfiðar.

Chelsea mætir Fulham í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og þarf nauðsynlega á jákvæðum úrslitum að halda.

Chelsea liðið hefur tapað sex af síðustu níu leikjum sínum og er dottið alla leið niður í tíunda sæti deildarinnar.

Nýju eigendurnir ráku Thomas Tuchel í byrjun september og keyptu í staðinn knattspyrnustjóra Brighton & Hove Albion, Graham Potter. Þeir hafa síðan skipt út nær öllum störfum sem koma að ákvarðanatöku í kringum liðið.

Chelsea hefur líka látið til sín taka á leikmannamarkaðnum í janúar og þar hefur verið blásið til sóknar.

„Allar þessar breytingar eru áskorun fyrir alla hjá félaginu. Við verðum að vinna með þetta nýja núna og verðum að byggja upp á nýtt. Hlutir hafa breyst og fólk hefur farið. Það var hluti af minni áskorun að koma hingað,“ sagði Graham Potter.

„Ég áttaði mig á því að þetta yrði mjög erfitt. Út frá sjónarhorni leiðtogans þá var þetta heillandi, krefjandi, örvandi og fáránlega erfitt,“ sagði Potter.

„Ég tel að þetta sé líklegast erfiðasta starfið í fótboltanum út af þessum breytingum í forystu félagsins, út af væntingunum og auðvitað hvernig fólk réttilega sér Chelsea. Ég bjóst auðvitað heldur ekki við því að missa tíu leikmenn aðalliðsins í meiðsli,“ sagði Potter.

„Svona er staðan núna. Það eina sem ég get gert er að koma fyrir framan ykkur, tala af hreinskilni, skýra út mitt sjónarhorn og skilja þá gagnrýni sem kemur alltaf ef þú tapar,“ sagði Potter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×