Fótbolti

Eigendur PSG vilja kaupa hlut í ensku úrvalsdeildarfélagi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nasser Al-Khelafi, forseti PSG, er stjórnarformaður QSI.
Nasser Al-Khelafi, forseti PSG, er stjórnarformaður QSI. Xavier Laine/Getty Images

Qatar Sports Investment (QSI), eigendur franska stórveldisins Paris Saint-Germain, eru sagðir vera að skoða möguleikann á því að kaupa hlut í liði í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Eins og staðan er núna er þó ekkert lið sem QSI hefur sérstakan augastað á, en Nasser Al-Khelafi, forseti PSG og stjórnarformaður QSI, hélt fund með Daniel Levy, eiganda Tottenham, í London í síðustu viku.

Þá hafa eigendur Manchester United, Glazer-fjölskyldan, sagst vera að leita að nýjum fjárfestum inn í félagið og að mögulega muni fjölskyldan hugsa sér að selja félagið. Eigendur Liverpool hafa einnig sagst vera að leita að nýjum hluthöfum í félaginu.

Þrátt fyrir fundinn á milli Nasser Al-Khelafi og Daniel Levy ítreka þeir aðilar þó að engar viðræður um að katarska fjárfestingafélagið ætli sér að fjárfesta í Tottenham hafi átt sér stað.

Þá þykir einnig ólíklegt að QSI ætli sér að kaupa félag í ensku úrvalsdeildinni í heild sinni. Það myndi þýða að fjárfestingafélagið þyrfti að selja PSG þar sem reglur evrópska knattspyrnusambandsins UEFA koma í veg fyrir að sami aðili eigi fleiri en eitt félag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×