Innlent

Vafi leikur á um hvort Landsréttur hafi mátt þyngja refsingu Angjelin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari.
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari. Vísir/Vilhelm

Ríkissaksóknari telur möguleika á því að Landsrétt hafi skort lagaheimild til að þyngja refsingu Angjelin Sterkaj í Rauðagerðismálinu. Mikilvægt sé að Hæstiréttur taki málið til skoðunar.

RÚV greinir frá þessu. Angjelin var dæmdur í tuttugu ára fangelsi í Landsrétti fyrir að hafa skotið Armando Beqirai til bana fyrir utan heimili þess síðarnefnda. Angjelin hafði áður verið dæmdur í sextán ára fangelsi í héraði.

Claudia Sofia Coel­ho Car­va­hlo, Murat Selivrada og Shpetim Qerimi voru einnig ákærð í málinu. Þau voru sýknuð í héraði en hlutu fjórtán ára dóm í Landsrétti.

Fram kemur í frétt RÚV að allir sakborningarnir fjórir hafi óskað eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari telur sömuleiðis mikilvægt að Hæstiréttur skoði skilyrði um samverknað í málinu annars vegar og hlutdeild hins vegar.

Þá vill ríkissaksóknari að skoðað verði hvort Landsréttur hafi haft lagaheimild til að þyngja refsingu Angjelins í málinu. Vafi leiki á því að mati ríkissaksóknara hvort lögákveðnar aðstæður hafi verið fyrir hendi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×