Erlent

Meiri­háttar gagna­leki hjá Twitter gæti ógnað and­ófs­fólki

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikið hefur gengið á hjá Twitter að undanförnu og verulega kvarnast úr starfsliðinu. Gögnunum virðist þó hafa verið stolið í lok árs 2021, mörgum mánuðum áður en eigendaskipti urðu hjá samfélagsmiðlinum.
Mikið hefur gengið á hjá Twitter að undanförnu og verulega kvarnast úr starfsliðinu. Gögnunum virðist þó hafa verið stolið í lok árs 2021, mörgum mánuðum áður en eigendaskipti urðu hjá samfélagsmiðlinum. AP/Jeff Chiu

Tölvuþrjótar láku upplýsingum um 235 milljónir notenda samfélagsmiðilsins Twitter og tölvupóstföngin sem þeir notuðu til þess að stofna reikninga sína. Með gögnunum er mögulegt að rekja spor nafnlausra notenda sem gæti ógnað öryggi andófsfólks.

Washington Post segir að svo virðist sem að gögnin hafi verið tekin saman síðla árs 2021 og þau birt á vinsælu markaðstorgi tölvuþrjóta. Þjófarnir hafi notfært sér galla í kerfi Twitter sem gerði óviðkomandi kleift að að finna notendur miðilsins með tölvupóstfangi eða símanúmeri þeirra.

Öryggissérfræðingur sem blaðið ræðir við segir að lekinn skapi hættu á að fólk sem notar Twitter til þess að gagnrýna stjórnvöld eða valdamikla einstaklinga í skjóli nafnleysis verði afhjúpað, handtekið eða beitt ofbeldi eða fjárkúgunum. Þrír af hverjum fjórum notendum miðilsins eru utan Bandaríkjanna og Kanada.

Þrjótarnir gætu enn fremur notað tölvupóstföngin til þess að skipta um lykilorð notenda og taka reikninga þeirra yfir, sérstaklega þeirra sem eru ekki með tvífasaauðkenningu.

Forsvarsmenn Twitters sögðust hafa fengið vitneskju um gallann í janúar en hann hafi verið til staðar í um sjö mánuði eftir uppfærslu á hugbúnaðinum. Tölvuþrjótar hafi reynt að selja upplýsingar um 5,4 milljónir notenda í júlí. Nær öruggt er talið að þeim gögnum hafi verið stolið með sama hætti og þeim sem nú eru til sölu.

Eftirlitsstofnanir beggja vegna Atlantsála fylgjast nú þegar grannt með Twitter vegna brota á persónuverndarlögum. Talið er að aukinn kraftur færist í þær rannsóknir vegna tíðindanna af meiriháttar gagnalekanum.

Stjórnendur Twitter svöruðu ekki fyrirspurnum Washington Post um lekann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×