Fótbolti

Vilja byggja völl í nafni Pelé á Breiðdalsvík

Smári Jökull Jónsson skrifar
Pele gæti fengið völl í sínu nafni á Breiðdalsvík.
Pele gæti fengið völl í sínu nafni á Breiðdalsvík. Vísir/Getty

Stjórn Ungmennafélagsins Hrafnkels Freysgoða í Breiðdal hefur sent Knattspyrnusambandi Íslands bréf þar sem þeir lýsa yfir áhuga á byggður verði völlur á Breiðdalsvík í nafni brasilísku goðsagnarinnar Pele.

Knattspyrnugoðsögnin Pelé lést í síðustu viku en þúsundir fylgdu honum síðasta spölinn þegar hann var borinn til grafar í borginni Santos í fyrradag.

Í jarðarför Pelé sagði Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, að hann myndi biðja allir þjóðir heims um að nefna einn leikvang í höfuðið á leikmanninum goðsagnakennda.

Stjórn Ungmennafélagsins Hrafnkels Freysgoða í Breiðdal greip þennan bolta frá Infantino á lofti og hefur nú sent bréf til Knattspyrnusambands Íslands þar sem þeir lýsa yfir áhuga á því að byggður verði völlur á Breiðdalsvík sem nefndur yrði eftir knattspyrnugoðsögninni.

Austurfrétt greinir frá málinu í dag.

Í bréfi ungmennafélagsins er sagt frá því að enginn knattspyrnuvöllur sé á Breiðdalsvík, ekki einu sinni sparkvöllur. Í frétt Austurfréttar segir auk þess að knattspyrna hafi lengi verið stunduð að Staðarborg í Breiðdal sem er sjö kílómetra fyrir innan þorpið.

Í bréfi Hrafnkels Freysgoða kemur einnig fram að uppgangur sé á Breiðdalsvík, verið sé að byggja þar fjölda íbúðahúsa og að nemendum hafi fjölgað í grunnskólanum um þriðjung á milli ára. Hins vegar vanti alla aðstöðu til knattspyrnuiðkunar og því sé óskað eftir stuðningi frá KSÍ við framtakið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×