Fótbolti

Brutust inn hjá Bale vopnaðir haglabyssum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fjölskylda eiginkonu Bale var í húsinu þegar brotist var þar inn.
Fjölskylda eiginkonu Bale var í húsinu þegar brotist var þar inn. James Williamson - AMA/Getty Images)

Fjölskylda Gareth Bale lenti í heldur leiðinlegri lífsreynslu á meðan kappinn var með Wales á heimsmeistaramótinu í Katar.

Frænka Emmu Rhys-Jones, eiginkonu Bale, og fjölskylda hennar gisti á heimili þeirra Bale og Jones í norðurhluta Wales í lok nóvember. Fjórir grímuklæddir menn brutust þar inn, vopnaðir haglabyssum.

Breskir miðlar greina frá því að þeir hafi vaðið inn öskrandi, leitandi að gulli. Eftir að hafa lítið fundið hafi þeir flúið á brott og engan sakaði. Einn mannana hefur verið handtekinn vegna málsins en sama má ekki segja um hina þrjá.

Haft er eftir heimildamanni sem tengdur er fjölskyldunni að atvikið hafi tekið mikið á það fólk sem statt var í húsinu.

„Gareth og Emma eru hneyksluð og það hefur valdið þeim töluverðu hugarangri að byssur hafi verið notaðar til hótana,“

„Við vitum ekki hvers vegna frænka Emmu var skotmark. Þau virtust biðja um mikið magn gulls. Atvikið olli mikilli skelfingu hjá frænku Emmu og fjölskyldu hennar,“

Bale er 33 ára gamall og er leikmaður Los Angeles FC í Bandaríkjunum. Hann spilaði alla þrjá leiki Wales á HM er liðið komst ekki upp úr riðlakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×