Fótbolti

Goðsögn í Genoa snýr aftur og verður liðsfélagi Alberts

Valur Páll Eiríksson skrifar
Criscito hefur samið við Genoa í fjórða sinn.
Criscito hefur samið við Genoa í fjórða sinn. Getty Images

Goðsögn í Genoa er snúin aftur til félagsins eftir að hafa tilkynnt að skórnir væru farnir upp í hillu í síðasta mánuði. Hann verður því liðsfélagi Alberts Guðmundssonar.

Fyrrum ítalski landsliðsmaðurinn Domenico Criscito er að semja við Genoa í fjórða sinn á ferlinum. Hann hóf ferilinn með félaginu en skipti ungur yfir til Juventus árið 2004.

Þar gekk honum illa að festa sig í sessi og fór til Genoa á ný árið 2006. Þaðan hélt hann til Pétursborgar og lék með Zenit frá 2011 til 2018 en leitaði aftur heim í kjölfar þess. Hann yfirgaf Genoa eftir fall liðsins úr efstu deild síðasta sumar og samdi við Toronto í MLS-deildinni en tilkynnti að hann væri hættur fótboltaiðkun eftir að tímabilinu vestanhafs lauk í nóvember.

Hann er nú hættur við að hætta og semur enn á ný við Genoa og mun aðstoða liðið við að komast aftur í deild þeirra bestu. Genoa situr í 3. sæti með 33 stig, þremur frá næsta liði fyrir ofan.

Tvö efstu liðin fara beint upp í A-deildina en liðin í 3.-8. sæti fara í umspil um sæti í deildinni.

Albert Guðmundsson leikur með liðinu en hann hefur skorað sigurmark liðsins í síðustu tveimur leikjum. Hann mun nú njóta liðssinnis Criscito í sókninni að sæti í Seríu A.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×