Lífið

Ellen opnar sig um missinn

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Ellen birti hjartnæmt myndband þar sem hún hvatti fólk til að heiðra minningu tWitch.
Ellen birti hjartnæmt myndband þar sem hún hvatti fólk til að heiðra minningu tWitch. Instagram/Twitter

Ellen DeGeneres tjáir sig í hjartnæmu myndbandi um fráfall tWitch sem lést fyrir örfáum dögum. Hún segir mikilvægast að heiðra minningu hans með því að dansa og syngja, þó að það virðist ómögulegt.

Dansarinn og plötusnúðurinn Stephen „tWitch“ Boss féll fyrir eigin hendi þann 13. desember síðastliðinn, aðeins fjörutíu ára gamall. Árið 2014 hóf hann störf sem plötusnúður og framleiðandi fyrir „The Ellen Show“ með DeGeneres.

Ellen birti myndband á Twitter fyrr í dag þar sem sorgin virðist bera hana ofurliði.

„Sæl öll. Ég vildi bara segja að síðustu dagar hafa verið mjög erfiðir. Það eru allir í sárum, við áttum okkur ekki á þessu. Jólin eru erfið fyrir marga. En til að heiðra minningu tWitch legg ég til að við hlæjum, knúsum hvert annað, spilum spil og dönsum og syngjum. Þannig höldum við minningu hans á lofti, með því að dansa og leika okkur. Það er það sem hann hefði viljað.“

Hún segist vita að það virðist ómögulegt á þessari stundu en þetta hefði tWitch viljað. Ellen segir mikilvægt að láta vini og fjölskyldu vita að maður sé til staðar fyrir þau.

„Hann var ljós lífsins eins og allir vissu. Ef þú þekktir hann þá vissirðu það, ef þú þekktir hann ekki þá sástu það. Heiðrum minningu hans og hugsum um hann. Dreifum ástinni.“

Vert er að taka fram að í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Píeta samtökin. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan pieta.is.


Tengdar fréttir

Dansarinn tWitch er látinn

Dansarinn og plötusnúðurinn Stephen „tWitch“ Boss er látinn 40 ára að aldri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×