Innlent

Segir ekkert réttlæta nafnleynd vændiskaupenda

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir formaður fjárlaganefndar Alþingis. Stöð 2/Einar

Þingmaður Vinstri grænna segir ekkert réttlæta nafnleynd vændiskaupenda. Endurskoða þurfi hefð dómara um nafnleynd og ef lagabreytingu þurfi til verði þingheimur að bregðast við. 

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í vikunni fjölskyldumann í fjögurra ára fangelsi fyrir nauðgun, kaup á vændi, sérlega hættulega líkamsárás og frelsissviptingu í kjallara í Reykjavík í apríl í fyrra.

Maðurinn var ekki nafngreindur í dómnum - en sú hefð hefur skapast hjá dómstólum hér á landi að nafngreina ekki vændiskaupendur. Þingmaður Vinstri grænna segir hefðina skjóta skökku við og til þess fallna að hlífa gerendum.

„Við birtum nöfn í morðmálum eða þar sem fjallað er um mjög alvarleg ofbeldisbrot og þess vegna skýtur það skökku við að verið sé að hlífa brotamönnum í kynferðisbrotamálum og ég held að þetta geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir þolendur, að geta ekki nema í sínum hópi sagt frá því og það berst ekki út að þetta séu aðilar sem eru að brjóta af sér og mér finnst ekkert réttlæta það að þeir njóti nafnleyndar. Það er ekkert sem rökstyður það,“ segir Bjarkey Olsen, þingmaður Vinstri grænna.

Hún segir mikilvægt að dómarar endurskoði þessa hefð, sér í lagi þar sem vændi er skilgreint sem ofbeldi í lögum.

„Vegna þess að ég held að þetta sé ekki eitthvað sem sé í lögum endilega að þurfi að vera með þessum hætti. Það er mikilvægt að þessi nöfn séu birt, ekki síst þar sem þetta er ofbeldi sem beinist að konum fyrst og síðast og ef við ætlum að ná utan um þolendur að þá er þetta eitt af því sem, að mínum mati, við verðum að taka á. Og ef það þarf lagabreytingu til þá verðum við að taka utan um það held ég á þingi.“


Tengdar fréttir

Fjöl­skyldu­maður hélt vændis­konu í gíslingu og nauðgaði í kjallara í Reykja­vík

Fjölskyldumaður nokkur hefur verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir nauðgun, kaup á vændi, sérlega hættulega líkamsárás og frelsissviptingu í kjallara húss í Reykjavík í apríl í fyrra. Karlmaðurinn braut bein í andliti konu sem hafði selt honum vændisþjónustu í klukkustund. Hann þarf að greiða henni þrjár milljónir króna í miskabætur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×