Innlent

Flugsamgöngur að komast í samt horf

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Ferðalangar sem setið hafa fastir á Íslandi munu vonandi komast til síns heima á næstu dögum.
Ferðalangar sem setið hafa fastir á Íslandi munu vonandi komast til síns heima á næstu dögum. Vísir/Fanndís

Flugsamgöngur til og frá landinu virðast vera að komast í samt lag á ný eftir óveður síðustu daga.

Samkvæmt vef Isavia hefur þó einhver röskun orðið á Ameríkuflugi Icelandair í nótt, frá Orlando, Denver og Portland auk þess sem flugi Play frá Madríd var aflýst og ferð Wizz Air frá Varsjá einnig. 

Aðrar vélar virðast á áætlun þótt nokkuð sé um seinkanir. 

Sömu sögu er að segja af brottfararhliðinni; ekkert er um aflýsingar á flugi en nokkuð um seinkanir. 

Í tilkynningu frá Icelandair frá því seint í gærkvöldi segir að vel hafi gengið að koma flugi út seinnipartinn í gær og í gærkvöldi en alls fóru sautján vélar frá félaginu af landi brott síðari hluta dags. Þó kom upp tæknibilun í einni vél sem var á leið til Denver og þurfti að snúa vélinni við og lenda á ný í Keflavík. 

Þá segir að allt kapp sé lagt á að koma fólki á áfangastað nú þegar aðstæður hafa batnað. 

Félagið hefur meðal annars gengið frá leigu á tveimur breiðþotum með áhöfnum sem verða nýttar í leiðakerfi Icelandair næstu daga. Athygli er vakin á því að skert þjónustustig er um borð í leiguvélunum þar sem um skammtímaleigu er að ræða.

Svipaða sögu er síðan að segja af flugfélaginu Play sem hefur brugðið á það ráð að sækja nýja farþegaþotu félagsins strax, en til stóð að taka hana í notkun í vor.

Play verður þannig með sjö eigin þotur til reiðu á morgun auk þess sem vélar verða leigðar til þess að allir farþegar félagsins komist á sinn áfangastað fyrir jólin, „svo lengi sem Keflavíkurflugvöllur og Reykjanesbrautin eru opin“, eins og segir í tilkynningu.

Útlit fyrir innanlandsflugið sem einnig hefur raskast síðustu dagar er líka gott í dag og hefur Icelandair því bætt fjölmörgum ferðum við til Egilsstaða, Akureyrar og Ísafjarðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×