Innlent

Þver­hyrna bætist við ís­lenska fiska­fánu

Kjartan Kjartansson skrifar
Þverhyrnan tilheyrir hyrnuætt af ættbálki kjaftagelgna en það eru djúpfiskar.
Þverhyrnan tilheyrir hyrnuætt af ættbálki kjaftagelgna en það eru djúpfiskar. Svanhildur Egilsdóttir

Ný fiskitegund fannst á íslensku hafsvæði í árlegu haustralli Hafrannsóknastofnunar. Svonefnd þverhyrna hefur aldrei áður veiðst í íslenskri efnahagslögsögu þó að hún hafi verið sérfræðingum kunn um nokkurt skeið.

Þverhyrnan kom í net Hafró þegar togað var á miklu dýpi, allt að 1.400 metrum. Fjölmargar lítt þekktar tegundir finnast þegar togað er svo djúpt, jafnvel þótt sumar séu nokkuð algengar, að því er segir í tilkynningu á vef stofnunarinnar.

Hún tilheyrir hyrnuætt af ættbálki kjaftagelgna. Flestir fiskar þess ættbálks eru djúpfiskar, ýmist botnfiskar eða botn- og miðsævisfiskar.

Hafró segir að þegar sjaldgæfir fiskar sem þessir finnist í leiðöngrum séu þeir frystir og skoðanir nánar á rannsóknastofu. Það tók Jónbjörn Pálsson, höfund bókarinnar Íslenskir fiskar sem er stofuninni innan handar við slíkar rannsóknir, aðeins nokkrar sekúndur að bera kennsl á þverhyrnuna.

Hyrnan hefur verið Jónbirni og Gunnari Jónssyni, meðhöfundi hans að bókinni, kunn um nokkurn tíma. Hún hefur meðal annars veiðst í leiðöngrum í Grænlandshafi, þar á meðal í Davissundi undan Vestur-Grænlandi og undan Ammasalik við Austur-Grænland. Einnig hefur hún veiðst djúpt vestur og suðvestur af Írlandi og vestan Njörvasunds. Eftir að þverhyrnan veiddist innan íslensku lögsögunnar geti hún nú talist til íslenskrar fiskafánu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×