Innlent

Allt til­tækt lið Reykja­víkur­borgar að störfum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Ryðja þarf um 1200 kílómetra.
Ryðja þarf um 1200 kílómetra. Vísir/Vilhelm

Allt tiltækt lið Vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar er að störfum við snjómokstur. Stofn- og tengibrautir eiga að vera færar en safngötur eru margar ófærar í efri byggðum. Ekki er gert fyrir úrkomu á höfuðborgarsvæðinu næstu daga.

Vetrarþjónustan hófst strax handa á á föstudagskvöld með áherslu á stofnbrautir og strætóleiðir. Vinna hefur haldið linnulaust áfram og erfiðlega hefur gengið að moka í Grafarvogi, Grafarholti, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Vandræði sköpuðust við Víkurveg seint í gærkvöldi sem leyst var með því að kalla út aukatæki í samráði við lögregluna. Hið sama gerðist í Skyggnisbraut í Úlfarsárdal í morgun en göturnar eiga nú að vera færar.

Í kortunum er hvöss norðaustanátt og gæti því skafið nokkuð, og þá sérstaklega vestast í Vesturbænum. Færð gæti spillst í kvöld og í nótt. Ráðstafanir hafa verið gerðar og Vetrarþjónustan er í viðbragðsstöðu.

„Það getur tekið nokkra daga að leysa úr þessu verkefni, því ryðja þarf um 1200 kílómetra af götum og 800 kílómetra af stígum, þar af eru 500 kílómetrar í forgangi,“ segir í tilkynningunni. Þess má geta að hringvegurinn er um 1200 kílómetra langur og er verkefnið því nokkuð umfangsmikið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×