Innlent

„Um leið og þú losar einn þá festist annar“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Frá aðgerðum á Grindavíkurvegi. Margir lögðu leið sína í Bláa lónið í dag þrátt fyrir snjóbyl.
Frá aðgerðum á Grindavíkurvegi. Margir lögðu leið sína í Bláa lónið í dag þrátt fyrir snjóbyl. aðsend

Björgunarsveitir hafa haft í nógu að snúast í snjóbyl í dag. Bílar eru fastir frá Borgarfirði og austur fyrir Selfoss þar sem ofankoman er einna mest. Þá hafa tafir orðið á flugi á Keflavíkurflugvelli vegna veðurtepptrar áhafnar og mikið púður hefur farið í snjómokstur á flugbrautum.

Vísi barst eftirfarandi myndband af aðstæðum á Grindarvíkurvegi:

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir stöðuna að mestu leyti óbreytta frá því í morgun. Björgunarsveitir hafi sinnt útköllum víðast hvar á Suður- og Vesturlandi.

„Það er enn verið að vinna að fjölda verkefna frá Suðurnesjum og núna meira að segja upp í Borgarfirði.  Það var fastur bíll á Uxahryggjaleið og svo var verið að senda björgunarsveitir úr Reykjavík til að aðstoða fólk á Mosfellsheiði.“

Aðgerðir hafi gengið vel þó hvimleiðar séu.

„Þetta potast áfram en það virðist alltaf bæta í bílahópinn. Um leið og þú losar einn þá festist annar. Þetta virðist vera að einhverju leyti ferðamenn sem gera sér ekki grein fyrir aðstæðum,“ bætir Jón Þór við. 

Þá hafa einhverjar tafir verið á flugi á Keflavíkurflugvelli. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. 

„Þessar tafir tengjast bæði snjómokstri hjá okkur og því að áhafnir voru veðurtepptar í morgun. Snjómokstur hefur að vísu gengið afsakplega vel hjá öflugu starfsfólki okkar,“ segir Guðjón.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×