Innlent

Sendi stúlku undir lögaldri kynferðisleg skilaboð

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Stúlkan og maðurinn kynntust í gegnum Snapchat og voru eftir það í samskiptum í gegnum forritið og í gegnum SMS-skilaboð.
Stúlkan og maðurinn kynntust í gegnum Snapchat og voru eftir það í samskiptum í gegnum forritið og í gegnum SMS-skilaboð. vísir/getty

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvítugan karlmann í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislega áreitni gegn barni.

Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa sent stúlku undir 15 ára aldri fimm gróf og kynferðisleg smáskilaboð á einum sólarhring og „áreitt hana með kynferðislegu orðbragði sem var til þess fallið að særa blygðunarsemi hennar,“ líkt og segir í ákæru.

Maðurinn neitaði sök en viðurkenndi að hafa sent umrædd skilaboð. Stúlkan og maðurinn kynntust í gegnum Snapchat og voru eftir það í samskiptum í gegnum forritið og í gegnum SMS-skilaboð.

Mat dómurinn það svo að orðalagið í skilaboðum mannsins hefði verið meiðandi í ljósi aðstæðna og ítrekað. Þá var ekki talið sannað að maðurinn hefði vitað að stúlkan væri undir 15 ára aldri. Hins vegar segir í dómnum að það verði að „meta ákærða það til gáleysis að hafa ekki gengið úr skugga um aldur brotaþola.“

Sem fyrr segir þótti hæfileg refsing vera skilorðsbundið tveggja ára fangelsi. Fram kemur í niðurstöðu dómsins að maðurinn hafi ekki hlotið refsidóm áður. 

Þá leit dómurinn einnig til þess að rannsókn málsins dróst nokkuð á langinn en tæpir átta mánuðir liðu frá því að málið var sent til héraðssaksóknara og þar til ákæra var gefin út.

Hins vegar var það talið til refsiþyngingar að maðurinn braut gegn ungri stúlku og misnotaði aðstæður sínar, þar með talið þroska-og aldursmun þeirra, og traust stúlkunnar án þess að skeyta um afleiðingar þess fyrir hana.

Auk þess er manninum gert að greiða stúlkunni 300 þúsund krónur í miskabætur auk vaxta.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í heild sinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×