Innlent

Árás ekki talin mjög lík­leg eða yfir­vofandi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Landsréttur felldi gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms úr gildi í dag.
Landsréttur felldi gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms úr gildi í dag. Vísir/Vilhelm

Landsréttur segir að gögn máls mannanna tveggja, sem grunaðir eru um tilraun til hryðjuverka, bendi ekki til þess að árás væri yfirvofandi eða að minnsta kosti mjög líkleg. Ítarleg matsgerð dómkvadds manns virðist hafa haft mikil áhrif.

Landsréttur felldi gæsluvarðhaldsúrskurði mannanna tveggja úr gildi í dag. Krafa ákæruvaldsins var byggð á tilteknu ákvæði laga um meðferð sakamála, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að úrskurða mann í gæsluvarðhald ef telja má „gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings.“ Litið hefur verið svo á að gæsluvarðhaldi, á grundvelli ákvæðisins, verði aðeins beitt þegar nauðsyn krefji.

Í úrskurðunum, sem fréttastofa hefur undir höndum, kemur fram að eðlilegt sé að skýra ákvæðið þannig að árás sé ekki aðeins möguleg heldur verði eitthvað að benda til þess að hún sé yfirvofandi eða að minnsta kosti mjög líkleg. Gögn málsins voru ekki talin þannig úr garði gerð að áskilnaði lagaákvæðisins væri fullnægt.

Þá var einnig litið til vitnisburðar geðlæknis sem sagði að heilbrigði mannsins yrði ekki talið þannig að hætta stafi af þeim, hvorki fyrir hann sjálfan né aðra einstaklinga eða hópa. Landsréttur reifaði að áður hafi verið fallist á gæsluvarðhald en nú liggi hins vegar fyrir ítarleg matsgerð, byggð á viðtölum við sakborninga, læknisfræðilegra gagna auk rannsóknargagna og áhættumati lögreglu.

Í ljósi niðurstöðu matsgerðarinnar og með hliðsjón af kröfum lagaákvæðisins, voru ekki talin hafa verið færð fullnægjandi rök fyrir því að nauðsynlegt væri að mennirnir sætu áfram gæsluvarðhald á grundvelli ákvæðisins.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×