Innlent

Spennu­þrungið and­rúms­loft í Karp­húsinu og við­ræður á við­kvæmu stigi

Sigurður Orri Kristjánsson og Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifa

Ljóst er að fundað verður fram á kvöld í Karphúsinu en fjölmiðlabann er þar í gildi að beiðni ríkissáttarsemjara.

Samflot iðn- og tæknifólks og Samtaka atvinnulífsins ásamt VR funda enn. Lítið er vitað um stöðuna að svo stöddu þar sem fjölmiðlabann hefur verið í gildi síðan í gær. Þó er ljóst að viðræðurnar eru á viðkvæmu stigi.

Andrúmsloftið í Karphúsinu er spennuþrungið.

Þegar fréttamaður okkar gekk inn á svæðið í dag mátti sjá formann VR, Ragnar Þór Ingólfsson ganga út úr húsi. Ekki er ljóst hvað megi lesa út úr því.

Ragnar veitti ekki viðtal vegna fjölmiðlabannsins en hann hefur lagt mikla áherslu á að samið verði sem fyrst vegna þeirra skrefa sem þarf að fylgja í kjölfar samninga. Kynna þarf kjarasamninga fyrir félagsmönnum og kjósa um þá áður en þeim er svo hrint í framkvæmd. Því er ljóst að mikið verk er fyrir höndum þegar samningar nást.

Í gær sagði Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari að þolinmæði manna fyrir ferlinu hafi ef til vill minnkað á síðustu dögum. 

„En þegar þolinmæðin þrýtur þá tekur þrautseigjan við og við sitjum áfram og gerum okkar allra besta. Það eru allir meðvitaðir um þá ábyrgð sem á þeim hvílir. Það eru allir að leggja sig fram og meira get ég ekki beðið um,“ sagði Aðalsteinn



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×