Innlent

Aðilar sem semji við SA þurfi að geta treyst því að línan haldi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. Vísir/Vilhelm

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að eftir eigi að útkljá mörg mál á fundi með samfloti iðn-og tæknifólks, VR og LÍV.

„Ég held að hljóðið sé bara ágætt. Fallegur dagur, heiðskýrt í nótt. Það viðrar vel til kjarasamningsgerðar í dag,“ segir Halldór Benjamín.

„Ég er almennt frekar bjartsýnn maður en raunsær á sama tíma. Það eru mörg mál sem á eftir að útkljá. Klukkan er bara rétt rúmlega tíu að morgni svo við höfum tímann fyrir okkur í dag.“

Aðspurður hvað beri á milli samningsaðila, þá segir Halldór það margþætt.

„Ég kýs að líta ekki á þetta sem deilu heldur verkefni sem við erum að vinna úr. Það hefur gengið vel hérna undanfarna daga. Mörg atriði sem við höfum náð að strika út af listanum. Eftir stendur að við þurfum að ná saman um stóra liði hér í dag. Hver veit nema það takist?“

SA samdi við Starfsgreinasambandið um kjarasamning á dögunum.

„Ég hef tjáð mig um það á mörgum stöðum að þeir kjarasamningar sem SA gera eru stefnumarkandi í eðli sínu. Við semjum við 130 til 140 aðila. Þeir aðilar sem gera kjarasamning við okkur verða að geta treyst því að sú lína sem við mörkum, að hún haldi.“

Sú hefð hefur haldið svo árum og áratugum skiptir.

Væri til að komast heim til fjölskyldu og barna

„Ef við eigum að læra af reynslunni getum við ekki útilokað það á þessum tímapunkti. En í aðdraganda jóla held ég að margir væru til í að geta verið heima með fjölskyldu og börnum.“

Hann hefur enga sérstaka skoðun á deilum í verkalýðshreyfingunni.

„Fólk sem er hér er að vinna af heilum hug. Okkur hefur reynst samstarf við það fólk gott. Ég ætla að treysta því að dagurinn muni bera þess merki.“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir tímann vera að hlaupa frá samningsaðilum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.