Króatar fyrstir í undanúrslit eftir dramatík og vítaspyrnukeppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Króatar eru á leið í undanúrslit heimsmeistaramótsins.
Króatar eru á leið í undanúrslit heimsmeistaramótsins. Justin Setterfield/Getty Images

Króatía varð í dag fyrsta þjóðin til að tryggja sér sæti í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í Katar er liðið hafði betur gegn Brasilíu í vítapyrnukeppni, 4-3. Markalaust var að venjulegum leiktíma loknum og liðin skoruðu sitt markið hvort í framlengingunni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.

Brasilía var af flestum talin sigurstranglegasta þjóðin á HM. Króatar eru hins vegar með svarta beltið í útsláttarkeppnum og þeir ætluðu svo sannarlega ekki að gefa tommu eftir í leik dagsins.

Eftir nokkuð tíðindalítinn fyrri hálfleik þar sem liðin sköpuðu sér fá færi var gengið til búningsherbergja í stöðunni 0-0.

Eftir því sem leið á síðari hálfleikinn fóru Brassarnir að færa sig framar á völlinn og sóttu stíft að marki Króata. Króatíska vörnin stóð þó vel og ekkert var skorað áður en flautað var til loka venjulegs leiktíma og því tók framlenging við.

Brasilíska liðið virtist alltaf líklegra til að skora í framlengingunni og það tókst loksins í uppbótartíma fyrri hálfleiks hennar. Brassarnir sundurspiluðu þá króatísku vörnina áður en Neymar slapp einn í gegn, lék á Livakovic í markinu og skoraði í autt markið. Þetta var hans 77. landsliðsmark og er hann því búinn að jafna markamet goðsagnarinnar Pelé.

Króatíska liðið var því komið með bakið upp við vegg og þeir sýndu að það þarf ekki alltaf að vaða í færum til að skora mörk. Strax á annarri mínútu síðari hálfleiks komst liðið í hraða sókn sem endaði með því að Bruno Petkovic skaut að marki. Með viðkomu í 

Nikola Vlasic var fyrstur á punktinn fyrir Króatíu og hann hamraði honum beint á markið, 1-0. Rodrygo var fyrstur á svið fyrir Brasilíu, en Dominik Livakovic varði vel.

Josip Stanisic var næstur í röðinni fyrir Króatíu og hann hamraði einnig beint á markið, 2-0. Brassar þurftu því sárlega á marki að halda og Casemiro skilaði sinni spyrnu í netið og minnkaði muninn.

Reynsluboltinn Luka Modric skoraði svo úr þriðja víti Króata áður en Pedro gerði slíkt hið sama fyrir Brasilíu.

Mislav Orsic tók fjórðu spyrnu Króata og skoraði af miklu öryggi fram hjá Alisson í markinu. Marquinhos þurfti því að skora fyrir Brasilíu til að halda draumum þeirra á lífi, en hann skaut í stöngina og Króatía er því á leið í undanúrslit á kostnað efsta liðs heimslista FIFA.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira