Fótbolti

Neita því að Ronaldo hafi hótað því að hætta á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fær fyrirliðabandið frá Pepe, þegar hann kemur inn á fyrir þrennumanninn Goncalo Ramos.
Cristiano Ronaldo fær fyrirliðabandið frá Pepe, þegar hann kemur inn á fyrir þrennumanninn Goncalo Ramos. AP/Alessandra Tarantino

Cristiano Ronaldo fékk blauta tusku í andlitið þegar hann var settur á bekkinn fyrir leik Portúgal í sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar.

Ronaldo hafði verið í byrjunarliðinu í þremur fyrstu leikjunum og er fyrirliði liðsins. Hann hafði hins vegar ekki skorað í tveimur leikjum í röð og fengið á sig gagnrýni fyrir frammistöðuna.

Hinn 21 árs gamli Goncalo Ramos kom inn í liðið fyrir leikinn á móti Sviss og skoraði þrennu auk þess að gefa eina stoðsendingu. Önnur blaut tuska í andlit Ronaldo.

Manchester United spilaði betur án hans og nú spilar portúgalska landsliðið einnig betur án hans en liðið vann 6-1 sigur á Sviss.

Menn biðu spenntir eftir viðbrögðum Ronaldo og sjaldan hafa verið jafnmargar myndavélar á varamannabekk liðs á HM. Eftir leikinn komu fram fréttir um meinta hótun markahæsta landsliðsmanns sögunnar.

Portúgalska knattspyrnusambandið neitar því hins vegar að Ronaldo hafi hótað að hætta á HM og yfirgefa Katar þegar hann frétti af því að hann yrði á bekknum í leiknum á móti Sviss.

Leikmaðurinn á að hafa hótað þessu í samtali við landsliðsþjálfarann Fernando Santos.

Santos talaði vel um Ronaldo eftir leikinn og að hann hefði hagað sér fagmannlega eftir að hafa fengið fréttirnar.

Santos var heldur ekki tilbúinn að ákveða hlutverk Ronaldo í framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×