Fótbolti

Lét leikmennina sína taka þúsund víti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spánverjar duttu út á EM í fyrra í vítaspyrnukeppni eftir tap fyrir Ítölum.
Spánverjar duttu út á EM í fyrra í vítaspyrnukeppni eftir tap fyrir Ítölum. Getty/Visionhaus

Spænski landsliðsþjálfarinn Luis Enrique er sannfærður um að vítaspyrnukeppni sé ekki happadrætti og passaði upp á það að hans menn myndu undirbúa sig fyrir slíkar kringumstæður.

Spánverjar mæta Marokkó í sextán liða úrslitunum í dag og liðum hefur gengið illa að skora hjá liði Marokkómanna á mótinu. Það gæti því reynst þeim spænsku erfitt að skora í leik þjóðanna í dag og fyrir vikið er vítakeppni alltaf möguleiki.

Spænski þjálfarinn hugsaði fram í tímann og landsliðsmenn hans þurfti að skila heimavinnu.

Enrique heimtaði nefnilega að leikmenn sýnir væru duglegir að æfa sig áður en þeir komu til móts við HM-hópinn.

„Ég lét leikmenn mína fá heimavinnu. Ég bað þá um að taka þúsund vítaspyrnur með félögum sínum áður en þeir komu hingað,“ sagði Luis Enrique.

„Þetta er eitthvað sem er ekki nóg að æfa bara í aðdraganda leikjanna. Þetta snýst ekki bara um heppni. Þetta eru kringumstæður þar sem pressan er eins og hún getur orðið mest. Ef þú hefur æft vítin oft þá ertu í betri stöðu. Auðvitað er ekki hægt að undirbúa sig fyrir pressuna og spennuna. En það er hægt að ráða við hana,“ sagði Enrique.

Þessi fjöldi þýðir að leikmenn spænska landsliðsins hafa fengið þessa beiðni frá landsliðsþjálfaranum fyrir mörgum mánuðum síðan. Þeir hafa eflaust líka æft vítaspyrnur á æfingum fyrir leikinn.

Spænska landsliðið tapaði í vítaspyrnukeppni í Evrópukeppninni í fyrra á móti verðandi Evrópumeisturum Ítala en höfðu áður unnið Sviss í vítakeppninni í átta liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×