Fótbolti

Styrkir foreldra með veik börn eftir dótturmissinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Luis Enrique mun styðja við foreldra í svipaðri stöðu og hann var í sjálfur árið 2019.
Luis Enrique mun styðja við foreldra í svipaðri stöðu og hann var í sjálfur árið 2019. Mateo Villalba/Getty

Luis Enrique, þjálfari spænska karlalandsliðsins í fótbolta, hefur haldið úti reglulegum útsendingum á myndbandsmiðlinum Twitch á meðan heimsmeistaramótið í Katar hefur staðið yfir. Tekjur hans af þeim munu renna í gott málefni.

Enrique tók sér leyfi frá störfum hjá spænska knattspyrnusambandinu árið 2019 vegna veikinda Xönu, dóttur hans, sem lést það sama ár, aðeins níu ára að aldri eftir baráttu við krabbamein. Enrique minntist hennar sérstaklega á samfélagsmiðlinum Instagram fyrir rúmri viku eftir leik Spánar við Þýskaland.

Enrique hefur þá haldið úti útsendingum á Twitch til að veita spænskum almenningi innsýn í störf hans og liðsins á meðan heimsmeistaramótinu stendur. Ein slík fór fram í gær en þar tilkynnti Enrique að allur sá peningur sem hann græddi á útsendingunum myndi renna óskiptur til hans eigin samtaka sem styðja við foreldra í svipaðri stöðu og hann og eiginkona hans voru í árið 2019.

„Allir peningarnir sem gefnir eru á Twitch munu renna til Enriqueta Villavecchia stofnunarinnar, til að hjálpa fjölskyldum og börnum með líknandi umönnun á erfiðustu stigum sjúkdóma þeirra í Barcelona,“ sagði Enrique á Twitch í gær.

Enrique og hans menn geta komist í 8-liða úrslit á HM í dag er liðið mætir Marokkó klukkan 15:00 í næst síðasta leik 16-liða úrslitanna. Portúgal og Sviss mætast svo í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×