Erlent

Amber Heard vill áfrýja

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Amber Heard í dómsal í Virginíu.
Amber Heard í dómsal í Virginíu. AP/Evelyn Hockstein

Lögmannateymi leikkonunnar Amber Heard hefur skilað inn beiðni um áfrýjun dóms í máli hennar og fyrrverandi eiginmanns hennar Johnny Depp.

Eldfimt meiðyrðamál Depp og Heard tók yfir fjölmiðla í vor en þann 1. júní síðastliðinn hafði Depp betur fyrir dómi. Heard var í kjölfarið dæmd til þess að greiða fyrrverandi eiginmanni sínum 15 milljónir Bandaríkjadala í skaðabætur eða um tvo milljarða íslenskra króna.

Daginn eftir að dómurinn var kveðinn upp og Heard sakfelld bárust fregnir af því að leikkonan ætlaði sér að áfrýja dómnum. Lögmaður hennar greindi jafnframt frá því að hún teldi sig eiga möguleika á að vinna málið fyrir æðri dómstól.

Samkvæmt umfjöllun BBC hefur lögmannateymi Heard nú óskað eftir því að dómi málsins sé snúið við eða málið tekið upp að nýju. Beri þau fyrir sig að réttarhöldin hafi verið haldin í röngu ríki, en þau voru haldin í Virginíu.

Þá er því haldið fram að málið hafi ekki átt að fara fyrir rétt í Bandaríkjunum þar sem breskir dómstólar höfðu nú þegar komist að þeirri niðurstöðu að Depp hefði beitt Heard ofbeldi. Sú niðurstaða varð í meiðyrðamáli sem Depp höfðaði gegn breska miðlinum The Sun árið 2018 fyrir að halda því fram að hann hefði beitt eiginkonu sína ofbeldi .

Einnig mótmæla lögmenn Heard ákvörðun dómarans að útiloka ákveðin sönnunargögn frá málinu, þar á meðal athugasemdir frá sálfræðingi Heard, þar sem greint er frá ásökunum um ofbeldi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×