Innlent

Sam­fé­lagið í Grinda­vík í sárum og bíður þess að skip­verjinn finnist

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík segir samfélagið harmi slegið vegna þessa hörmulega atburðar.
Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík segir samfélagið harmi slegið vegna þessa hörmulega atburðar. Vísir/Arnar

Samfélagið í Grindavík er í sárum eftir að sjómaður, búsettur í bænum, féll frá borði línuskipsins Sighvats GK-57 í Faxaflóa. Þetta segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. 

Maðurinn féll frá borði síðdegis á laugardag og hefur leit staðið yfir síðan þá. Landhelgisgæslan fer fyrir leitinni, sem heldur áfram í góðu leitarveðri í dag. Maðurinn var búsettur í Grindavík og línubáturinn, Sighvatur, í eigu útgerðarinnar Vísis hf. í Grindavík. 

„Samfélagið hér er náttúrulega bara í sárum vegna þessa hörmulega atburðar og nú er bara beðið eftir því að allur þessi stóri hópur skipa, báta og þyrlan finni skipverjann,“ segir Fannar í samtali við fréttastofu. 

Bænastund hafi verið haldin í Grindavíkurkirkju í gær sem vel hafi verið mætt í. Atburður sem þessi hafi mikil áhrif á lítið samfélag. 

„Já, þetta er mjög erfitt og bæði fjölskylda stór og vinir sem þekkjast hér frá ýmsum hliðum. Bæði áhöfn, útgerðin og fjölskylda sjómannsins eiga um mjög sárt að binda. Það er samhugur hjá fólki hérna og samheldni þegar svona hörmulegir atburðir verða hérna hjá okkur,“ segir Fannar. 

Þeim sem þurfi verði boðin áfallahjálp.

„Það er reynt að hjálpa viðkomandi eins og hægt er. Bæði kirkjan og fleiri sem koma að því, eftir því sem þörf er á. Síðan stöndum við bara saman hérna í Grindavík eins og við gerum á erfiðum tímum og reynum að styrkja hvert annað.“


Tengdar fréttir

Leitar­svæðið á Faxa­flóa stækkað í dag

Leit að skipverja, sem féll útbyrðis af fiskiskipi á laugardag, heldur áfram í dag. Leitarsvæðið hefur verið stækkað nokkuð en bæði varðskipið Þór, þyrla Landhelgisgæslunnar og leitarskip björgunarsveita munu taka þátt í leitinni.

Hefja leit að nýju við birtingu

Leitinni að skipverja sem féll útbyrðis síðdegis í gær var frestað á tíunda tímanum í kvöld, en leit hefur ekki borið neinn árangur. Varðskipið Þór verður á svæðinu í nótt og mun áhöfn þess hefja leit aftur í birtingu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.