Fótbolti

Segir að Japanir verði að berjast eins og samúræjar gegn Króötum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Yuto Nagatomo segir að Japanir megi ekki vera hræddir inni á vellinum gegn Króötum.
Yuto Nagatomo segir að Japanir megi ekki vera hræddir inni á vellinum gegn Króötum. getty/Marc Atkins

Japanir verða að berjast eins og samúræjar þegar þeir mæta Króötum í sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar í dag. Þetta segir Yuto Nagatomo, einn reyndasti leikmaður japanska liðsins.

Japan lenti undir gegn Spáni og Þýskalandi en vann báða leikina og endaði í efsta sæti E-riðils. Japana bíður leikur gegn silfurliði síðasta heimsmeistaramóts, Króötum, í sextán liða úrslitunum. Ef Japan vinnur kemst liðið í átta liða úrslit HM í fyrsta sinn.

Nagatomo leikur væntanlega sinn 142. landsleik í dag. Hann segir að hugarfarið verði lykilatriði gegn Króatíu. 

„Áður en þeir fara í bardaga brýna samúræjarnir vopnin og reyna að bæta tækni sína. En ef þeir eru hræddir í bardaga geta þeir ekki nýtt vopnin og tæknina að fullu,“ sagði Nagatomo.

„Það sama gildir um fótbolta. Að sjálfsögðu er taktík og tækni mikilvæg en sama hversu mikið við nýtum þau skipta þau engu ef við erum hræddir á vellinum.“

Nagatomo er á sínu fjórða heimsmeistaramóti. Á tveimur þeirra hefur Japan komist í sextán liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×