Fótbolti

Inn­byrðis vanda­málin sem felldu Belga | Vand­ræða­leg grill­veisla og rifrildi lykil­manna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kevin De Bruyne og Toby Alderweireld hafa verið lykilmenn Belgíu í stjóratíð Roberto Martinez.
Kevin De Bruyne og Toby Alderweireld hafa verið lykilmenn Belgíu í stjóratíð Roberto Martinez. Vísir/Getty

Belgíska landsliðið olli miklum vonbrigðum á heimsmeistaramótinu í Katar og féll úr leik eftir riðlakeppnina. The Athletic hefur skyggnst bakvið tjöldin hjá belgíska liðinu þar sem innbyrðis deilur lykilmanna hafa valdið vandræðum.

Þegar Roberto Martinez tók við þjálfun belgíska landsliðsins árið 2016 hafði fólk varað hann við tungumálavandræðum innan hópsins sem deildi honum í tvennt. Leikmenn eins og Kevin De Bruyne, Toby Alderweireld og Jan Vertongen komu úr norðrinu þar sem flæmska var móðurmálið á meðan Eden Hazard og Axel Witsel töluðu fyrst og fremst frönsku.

Þar sem í hópnum voru einnig leikmenn eins og Thibaut Courtois, Vincent Kompany og Romelu Lukaku sem áttu auðvelt með að skipta yfir í ensku þá ákvað Martinez að enska yrði tungumáið sem tala skyldi í landsliðshópnum. 

Þetta hentaði hinum spænska Martinez vel sem talaði sjálfur ensku en var ekki jafn sterkur í flæmsku og frönsku. Þetta hentaði leikmannahópnum sömuleiðis og varð til þess að meiri samkennd skapaðist innan liðsins.

Móðurmál Eden Hazard er franska á meðan Kevin De Bruyne kemur frá þeim hluta Belgíu þar sem flæmska er töluð. Hér sjást þeir félagar ræða saman í leik Belgíu og Marokkó.Vísir/Getty

Samheldnin var mikil í liðinu lengst af í stjóratíð Martinez. Vissulega var spenna á milli ákveðinna einstaklinga en á heimsmeistaramótinu í Rússlandi árið 2018 var liðsandinn frábær enda komst Belgía þá í undanúrslit í aðeins annað sinn í sögunni og vann að lokum til bronsverðlauna.

Í grein The Athletic er sagt frá því að síðustu árin hafi leikmenn leitað meira og meira í sitt móðurmál og að frá því undankeppni heimsmeistaramótsins hófst hafi enska heyrst sífellt minna innan hópsins. Þetta hafi skapað ákveðin vandamál og búið til litla hópa innan leikmannahópsins.

Að tungumálið hafi farið að valda vandræðum á nýjan leik er ekki aðalástæðan fyrir slöku gengi Belgíu í Katar. Það er hins vegar merki um hvernig hlutirnir hafa farið niður á við og tilefni ýmissa samtala um hvað fór úrskeiðis og hverjum væri um að kenna.

Vandræðaleg grillveisla með fjölskyldunum

Á meðan flestar þjóðir sem taka þátt í mótinu í Katar völdu sér dvalarstað innan við 25 kílómetra frá Doha, á Vesturströnd landsins, þá fóru Belgar aðra leið. Þeir höfðu aðsetur á glæsilegu hóteli á Salwa ströndinni sem er 150 kílómetra frá Doha.

Þetta vakti ekki sérstaka mikla gleði í belgíska hópnum. Þó á hótelinu væri allt að finna sem leikmennirnir þörfnuðust þá fannst þeim þeir einangraðir frá fjölskyldum sínum sem komnar væru til að styðja þær á mótinu.

Fyrir mótið var búið að ákveða fjölskyldudag belgíska hópsins, daginn eftir leikinn gegn Marokkó sem fór fram á sunnudag fyrir viku síðan. Fjölskyldum leikmanna var þá boðið til grillveislu á hótelið, líkt og gert var fyrir fjórum árum í Rússlandi og hafði þá heppnast vel.

Í þetta skiptið mættu fjölskyldurnar í þungt andrúmsloft innan leikmannahópsins. Liðið hafði tapað fyrir Marokkó daginn áður og í búningsklefanum eftir leik höfðu leikmenn verið ósáttir og bent fingri hver á annan, eitthvað sem fjölskyldur leikmanna voru mjög meðvitaðar um þegar í grillveisluna var komið.

Kat Karkhofs, eiginkona framherjans Dries Mertens, mætti í hlaðvarpið Midmid Mondial þar sem hún ræddi um andann innan hópsins.

„Ég held að leikmennirnir hafi verið mjög almennilegir hver við annan, en grillveislan var mjög vandræðaleg.“

Heimildir The Athletic herma að vandræðalegheitin hafi verið til staðar frá því að belgíska liðið kom til Katar. Það var pirringur gagnvart knattspyrnusambandinu varðandi dvalarstaðinn og gagnvart Martinez vegna þess hvernig leikmenn gætu eytt frítíma sínum á milli leikja og æfinga í Katar.

„Við eigum enga möguleika“

Kevin De Bruyne átti ekki gott heimsmeistaramót og olli spilamennska hans miklum vonbrigðum. Hann hefur ekki tjáð sig um gengi liðsins í Katar síðan Belgía féll úr leik og það eina sem birst hefur frá honum á samfélagsmiðlum er mynd af honum og dóttur hans sem hann birti eftir sigurinn gegn Kanada með textanum „Ekkert er mikilvægara“.

Fyrir leikinn gegn Marokkó birti The Guardian viðtal við De Bruyne sem tekið var áður en hann hélt til Katar. Í greininni var aðaláherslan á fjölskyldumanninn De Bruyne en undir lokin var hann spurður um möguleika Belgíu í Katar.

„Við eigum enga möguleika,“ sagði hann og benti á að stóri möguleikinn hefði komið og farið í Rússlandi fyrir fjórum árum.

„Við erum með gott lið en það er að eldast. Við höfum misst lykilleikmenn. Við erum erum neð nokkra nýja leikmenn sem eru góðir en þeir eru ekki með sömu gæði og leikmennirnir árið 2018.“

Ekki nóg með að De Bruyne hafi þarna lítilsvirt eldri liðsfélaga hans, eins og Vertongen, Alderweireld og Witsel, heldur sagði hann einnig að yngri leikmenn eins og Amadou Onana, Youri Tielemans, Leandro Trossard og Jeremy Doku væru ekki nógu góðir til að brúa bilið þar á milli.

Fjölmargir utanaðkomandi taka eflaust undir orð De Bruyne en þetta var kæruleysislegt af jafn reyndum leikmanni. Í grein The Athletic kemur fram að De Bruyne hafi verið ósáttur með hvernig orð hans voru tekin út úr samhengi en þetta hjálpaði svo sannarlega ekki til að bæta stemmninguna í pirruðum leikmannahópnum.

Í viðtali eftir leikinn gegn Marokkó sagði Vertongen til dæmis að frammistaða Belgíska liðsins hefði verið slök því mögulega væri liðið „of gamalt í sókninni“ en Vertongen er varnarmaður á meðan De Bruyne leikur framar á vellinum.

Á þriðjudag birti franska dagblaðið L´Equipe síðan fréttir af rifrildi á milli Kevin De Bruyne og Jan Vertongen þar sem Romelu Lukaku þurfti að skerast í leikinn. Fréttir í kjölfarið hafa gert minna úr atvikinu en gert var í upphafi en rifrildið átti sér stað og Lukaku þurfti sannarlega að stíga á milli. Einnig eiga Vertongen og Eden Hazard að hafa rifist en þeim síðarnefnda tekist að róa félaga sinn niður.

Allt í skrúfunni eftir tapið gegn Ítalíu á EM

Ef við skoðum þróun mála hjá Belgum síðustu árin þá tala úrslitin sínu máli.

Eftir að liðið tapaði sínum fyrsta leik undir stjórn Martinez, gegn Spánverjum í september 2016, þá vann liðið 46 leiki, gerði níu jafntefli og tapaði aðeins þremur af næstu 58 leikjum liðsins á fimm ára tímabili. Liðið var efst á styrkleikalista FIFA í þrjú og hálft ár, frá september 2018 og þar til í mars á þessu ári.

Liðið var frábært á HM í Rússlandi árið 2018, vann alla leiki sína í riðlinum og átti frábæra endurkomu gegn Japan í 16-liða úrslitum áður en þeir unnu Brasilíu í 8-liða úrslitum. Þeir töpuðu fyrir verðandi heimsmeistrum Frakka í undanúrslitum en tryggðu sér bronsverðlaunin með sigri á Englendingum

Á Evrópumótinu á síðasta ári tapaði liðið fyrir Ítalíu í 8-liða úrslitum, sem líkt og Frakkarnir árið 2018, fóru síðan alla leið og urðu meistarar.

Það er spurning hversu margir af hinni svokölluðu gullnu kynslóð Belga verða í landsliðinu í undankeppni næsta Evrópumóts.Vísir/Getty

Frá tapinu gegn Ítalíu hafa hlutirnir hins vegar farið ansi hratt niður á við. 

Eftir að hafa tapað aðeins þrisvar í 58 leikjum þar á undan þá hefur Belgía tapað sjö af síðustu nítján leikjum undir stjórn Martinez. Ef liðið lenti undir, þá tapaði það. Það gerðist gegn Ítalíu á EM, gegn Frökkum og Ítaíu í úrslitum Þjóðadeildarinnar og gegn Hollandi í riðlakeppni þeirrar sömu keppni.

Slakur árangur á heimsmeistaramótinu kemur því kannski ekki öllum á óvart ef sagan síðustu mánuði er skoðuð. Það er ljóst að eftirmaður Roberto Martinez á vandasamt verk fyrir höndum. Það þarf að endurnýja og sú endurnýjun verður líklegast erfiðari en oft áður því Martinez fékk á sig gagnrýni fyrir að treysta of mikið á leikmenn, líkt og Eden Hazard og Romelu Lukaku, og gefa ekki öðrum tækifæri.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.