Fótbolti

Verður Gabriel Jesus frá næstu þrjá mánuðina?

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gabriel Jesus gæti verið lengi frá.
Gabriel Jesus gæti verið lengi frá. Vísir/Getty

Brasilískir fjölmiðlar greina frá því að Gabriel Jesus leikmaður Arsenal þurfi að fara í aðgerð og verði frá næstu þrjá mánuðina. Jesus meiddist á hné í leik Brasilíu og Kamerún á heimsmeistaramótinu í Katar.

Gabriel Jesus fór af velli á 64.mínútu leiksins gegn Kamerún á föstudag og í gær var síðan greint frá því að hann yrði ekki meira með á heimsmeistaramótinu í Katar. 

Leikurinn gegn Kamerún var sá fyrsti þar sem Jesus var í byrjunarliði Brasilíu á mótinu en liðið hafði tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum fyrir leikinn og hvíldi marga af sínum lykilmönnum. 

Upphaflega var talið að Jesus yrði frá í 4-6 vikur vegna meiðslanna en í dag greinir brasilíski miðillinn SporTV frá því að Jesus hafi farið í rannsókn í gær og í ljós hafi komið að meiðslin væru alvarlegri en talið var í fyrstu. Jesus muni fljúga til Lundúna í dag þar sem hann mun gangast undir aðgerð. Líklegt er að hann verði frá í þrjá mánuði vegna meiðslanna.

Þessar fréttir eru áfall fyrir Mikel Arteta þjálfara Arsenal. Jesus hefur sýnt góða takta síðan hann gekk til liðs við Arsenal í sumar og skorað fimm mörk og gefið fimm stoðsendingar í fjórtán leikjum.

Arsenal hefur leik í ensku úrvalsdeildinni að nýju á annan dag jóla þegar liðið mætir West Ham. Eddie Nketiah er eini hreinræktaði framherjinn í leikmannahópi Arsenal fyrir utan Jesus, þó Gabriel Martinelli geti einnig leyst framherjastöðuna en hann hefur að mestu leikið úti á vængnum á tímabilinu.

Svo gæti því farið að Arteta reyni að finna framherja þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.