Erlent

Setja ofan í við Trump sem vill víkja stjórnar­skránni til hliðar

Kjartan Kjartansson skrifar
Donald Trump er enn bitur yfir því að hafa tapað forsetakosningunum árið 2020 fyrir Joe Biden.
Donald Trump er enn bitur yfir því að hafa tapað forsetakosningunum árið 2020 fyrir Joe Biden. AP/Rebecca Blackwell

Hvíta húsið gefur lítið fyrir yfirlýsingar Donalds Trump, fyrrverandi forseta og forsetaframbjóðenda, um að fella ætti stjórnarskrá Bandaríkjanna úr gildi og setja hann sjálfan aftur í embætti. 

Trump hélt áfram stoðlausum ásökunum sínum um að stórfelld kosningasvik hefðu kostað hann endurkjör í forsetakosningunum árið 2020 á samfélagsmiðlinum Truth í gær. Fyrrverandi forsetinn gekk þó lengra en oftast áður þar sem hann kallaði eftir því að stjórnarskráin yrði lögð til hliðar svo hægt væri að setja hann aftur í embættið.

„Stórfelld svik af þessu tagi og umfangi leyfa það að öllum reglum, reglugerðum, og greinum sé eytt, jafnvel þeim sem eru í stjórnarskránni,“ skrifaði Trump í færslu sinni.

Andew Bates, talsmaður Hvíta hússins sagði að allir ættu að fordæma yfirlýsingu Trumps þar sem það væri gegn þjóðarsálinni að ráðast á stjórnarskrána.

„Maður getur ekki bara elskað Bandaríkin þegar maður vinnur,“ sagði Bates, að sögn Washington Post.

Landsnefnd Demókrataflokksins fordæmdi ummæli Trumps í gær ásamt nokkrum öðrum stjórnmálamönnum, nær eingöngu demókrötum.

Svo virðist sem að tilefni færslu Trumps hafi verið „uppljóstranir“ sem Elon Musk, eigandi Twitters, boðaði um að fyrri stjórnendur samfélagsmiðilsins hefðu kæft tjáningarfrelsið í aðdraganda forsetakosninganna á föstudag. Ekkert kom þó fram í löngum þræði fyrrverandi blaðamanns sem Musk fékk til að birta innanhússsamskipti fyrrverandi stjórnenda og starfsmanna um að miðlinum hefði verið beitt gegn Trump eða í þágu demókrata.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.