Innlent

Fimm slösuðust í á­rekstri á Hnífs­dals­vegi

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Mýflug flutti þrjá af þeim fimm sem slösuðust suður með sjúkraflugi.
Mýflug flutti þrjá af þeim fimm sem slösuðust suður með sjúkraflugi. Vísir/Vilhelm

Tveggja bíla árekstur varð á Hnífsdalsvegi fyrr í kvöld. Fimm eru slasaðir og komu inn á sjúkrahús á Ísafirði. Samhæfingarstöð almannavarna var virkjuð. Tvær flugvélar fluttu þrjá af þeim slösuðu suður. Enginn er sagður látinn. 

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Hún segir mikinn viðbúnað á svæðinu en almannavörnum var gert viðvart um slysið á áttunda tímanum.

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir í samtali við fréttastofu að mikill viðbúnaður sé á sjúkrahúsinu á Ísafirði vegna slyssins. Fimm einstaklingar hafi slasast alvarlega en enginn sé látinn. Þrír af þeim fimm sem slösuðust hafi verið fluttir suður en tveir séu á sjúkrahúsinu á Ísafirði. 

Gylfi segir alla tiltæka lækna og hjúkrunarfræðinga á svæðinu hafa verið kallaða út vegna slyssins. 

Hann segir flugvélarnar tvær fara þrjár ferðir suður til þess að flytja einstaklingana sem um ræðir. 

Búið er að fjarlægja bílana af vettvangi.Vísir/Hafþór

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum tóku, auk heilbrigðisstarfsfólks, um fimmtíu manns þátt í aðgerðunum og hafa viðbragðsaðilar nú lokið störfum. Tildrög slyssins séu til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum en bílarnir tveir hafi rekist saman þegar þeim var ekið úr sitt hvorri áttinni. 

Búið er að flytja alla þrjá aðilana sem átti að flytja, suður.Vísir/Vilhelm

 Uppfært klukkan 23:44. Upphaflega stóð að allir fimm yrðu fluttir suður en á endanum reyndust aðeins þrír verða fluttir. Einnig voru fimm í bílunum tveimur en ekki sjö eins og skrifað var í fyrstu. 

Uppfært klukkan 00:17. Einstaklingarnir þrír hafa nú allir verið fluttir suður. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×