Fótbolti

Gerðu stólpagrín að Þjóðverjum í sjónvarpinu

Sindri Sverrisson skrifar
Katarar gerðu grín að liðsmynd Þjóðverja þegar þeir kvöddu þá í gær.
Katarar gerðu grín að liðsmynd Þjóðverja þegar þeir kvöddu þá í gær.

Katarskir sjónvarpsmenn stóðust ekki mátið og gerðu stólpagrín að Þjóðverjum eftir að Þýskaland féll úr keppni á HM karla í fótbolta í Katar í gær.

Fjöldi manna gerði grín að þýska liðinu í útsendingunni í Katar í gær með því að halda fyrir munninn og veifa bless.

Þýska landsliðið hafði vakið heimsathygli með því að halda fyrir munninn á liðsmynd fyrir fyrsta leik sinn á HM, þegar liðið mætti Japan.

Með þessu vildu Þjóðverjar mótmæla þeirri ákvörðun FIFA og mótshaldara í Katar að banna Manuel Neuer, fyrirliða Þýskalands, að vera með fyrirliðaband í regnbogalitum. Það hugðist Neuer gera til að vekja athygli á þeim mannréttindabrotum sem LGBTQ+ fólk má þola í Katar. FIFA hótaði hins vegar refsingu, jafnvel í formi leikbanns, fyrir að notast við fyrirliðaband í regnbogalitum.

Þýskaland tapaði leiknum við Japan og það reyndist á endanum dýrkeypt því þrátt fyrir jafntefli við Spán og sigur gegn Kosta Ríka féll liðið úr keppni í gær á meðan að Spánn og Japan komust áfram í 16-liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×