Fótbolti

Leikmenn Þjóðverja héldu allir fyrir munninn á sér á liðsmyndinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má sjá leikmenn þýska liðsins stilla sér upp á liðsmyndinni fyrir leikinn á móti Japan.
Hér má sjá leikmenn þýska liðsins stilla sér upp á liðsmyndinni fyrir leikinn á móti Japan. AP/Ricardo Mazalan

Þjóðverjar eru mjög ósáttir við kúgun Alþjóða knattspyrnusambandsins og létu það vel í ljós á liðsmyndinni fyrir leik sinn á móti Japan á heimsmeistaramótinu í Katar en það var fyrsti leikur þýska liðsins á HM 2022.

Katarbúar vilja alls ekki sjá regnbogalitina neins staðar á HM og berjast á móti öllu sem táknar fjölbreytileika eða sýnir stuðning við samkynhneigða. Samkynhneigð er bönnuð í landinu.

FIFA hefur gefið eftir undan pressu gestgjafanna sem tala um pólitík en flestir eru þó á því að þetta snúist um mannréttindi en ekki stjórnmál. Þjóðverjum er mjög misboðið.

Leikmenn Þjóðverja ákváðu að mótmæla banni FIFA á One Love fyrirliðabandinu með því að allir leikmenn liðsins héldu fyrir munninn á sér á liðsmyndinni

„Þetta snerist ekki um að gefa út pólitíska yfirlýsingu. Það er enginn millivegur þegar kemur að mannréttindum. Það á að vera sjálfsagður hlutur en það er ekki þannig. Þess vegna eru þessi skilaboð mikilvæg fyrir okkur. Með því að neita okkur um að bera fyrirliðabandið er verið að þagga niðri í okkar rödd. Við stöndum fastir á okkar,“ stóð í yfirlýsingu á samfélagsmiðlum þýska knattspyrnusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×