Fótbolti

Leik­­maður í ensku úr­­vals­­deildinni á­­fram laus gegn tryggingu eftir hand­töku vegna nauðgunar í sumar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmaðurinn var valinn í lokahóp landsliðs sem leikur á heismeistaramótinu í Katar.
Leikmaðurinn var valinn í lokahóp landsliðs sem leikur á heismeistaramótinu í Katar. Vísir/Getty

Leikmaður í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu verður áfram laus gegn tryggingu eftir að hafa verið handtekinn í sumar sakaður um nauðgun. Leikmaðurinn var valinn í lokahóp landsliðs sem keppir á heimsmeistaramótinu í Katar.

Leikmaðurinn var handtekinn í sumar vegna ásökunar um nauðgun en úrskurðurinn um að hann skyldi vera laus gegn tryggingu var framlengdur og gildir nú þar til í janúar í byrjun næsta árs.

Í yfirlýsingu Metropolitan lögreglunnar í London og nágrenni segir að leikmaðurinn hafi verið handtekinn þann 4.júlí í sumar eftir að tilkynning barst til lögreglunnar frá konu á þrítugsaldri um meinta nauðgun. Nauðgunin á að hafa átt sér stað í júní 2021.

Leikmaðurinn var einnig sakaður um tvær aðrar nauðganir af annarri konu sem einnig er á þrítugsaldri. Þær nauðganir eiga að hafa átt sér stað í apríl og júní árið 2021. Ekkert verður aðhafst í öðru þeirra mála þar sem löggjöf sem gildir um málið hafði ekki tekið gildi á þeim tíma sem meint brot átti sér stað.

Í frétt The Athletic kemur fram að leikmaðurinn hafi verið valinn í lokahóp eins þeirra þrjátíu og tveggja landsliða sem nú taka þátt í heimsmeistaramótinu í Katar. Þar sem leikmaðurinn hefur ekki verið ákærður hefur hann ekki verið nafngreindur í fjölmiðlum. 

Félagslið leikmannsins setti leikmanninn ekki í bann og hann hefur haldið áfram að leika með liðinu í ensku úrvalsdeildinni í haust.

Tvö önnur mál hafa verið til umfjöllunar undanfarið þar sem leikmenn liða í ensku úrvalsdeildinni eru sakaðir um kynferðisbrot. Benjamin Mendy, leikmaður Manchester City, bíður dóms eftir að hafa verið ákærður fyrir sjö nauðganir og eina tilraun til nauðgunar en Pep Guardiola, þjálfari City, var meðal þeirra sem bar vitni við réttarhöldin.

Þá var Mason Greenwood, leikmaður Manchester United, ákærður nú í haust fyrir nauðgun og líkamsárás en hann var handtekinn í janúar eftir að þáverandi kærasta hans birti myndbandsbút á samfélagsmiðlum þar sem heyra mátti einstakling hótaði henni barsmíðum og þaðan af verra. Þá birti hún einnig myndir af sér með áverka í andliti sem hún sagði að væru eftir Greenwood.

Hvorki Mendy né Greenwood hafa leikið með liðum sínum undanfarna mánuði.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.