Innlent

Rann­sókn á skipu­lagningu hryðju­verka lokið og boltinn hjá sak­sóknara

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Frá upplýsingafundi lögreglu í september. 
Frá upplýsingafundi lögreglu í september.  Vísir/Vilhelm

Rannsókn í máli tveggja manna sem grunaðir eru um skipulagningu hryðjuverka er nú lokið og eru gögnin komin til saksóknara sem ákveður næstu skref og hvort ákæra verði gefin út. Mennirnir hafa verið í gæsluvarðhaldi í tíu vikur og verða þar áfram í hið minnsta fram á næstu viku. 

Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við fréttastofu en rannsóknin beindist að brotum á almennum hegningarlögum hvað varðar hryðjuverk og hins vegar brotum á vopnalögum. Ekki liggur fyrir hvort ákæra verði gefin út og þá hvenær en að sögn Ólafs ætti ekki að líða langur tími þar til saksóknari tekur ákvörðun. 

Mennirnir tveir voru úrskurðaðir í tveggja vikna áframhaldandi gæsluvarðhald í síðustu viku en þeir höfðu þá þegar verið í varðhaldi í níu vikur. Lögmaður annars mannsins kærði úrskurðinn í síðustu viku til Landsréttar sem síðan staðfesti úrskurðinn, að sögn Ólafs. Ekki hefur verið ákveðið hvort farið verði fram á lengra gæsluvarðhald að svo stöddu. 

Fleiri hafa stöðu sakbornings á mögulegum vopnalagabrotum en saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara sagði þá innan við tíu talsins þegar fréttastofa ræddi við hann í síðustu viku.

Upp komst um málið um miðjan september eftir upplýsingar um rannsókn sem hafði staðið yfir í nokkrar vikur, og sneri að framleiðslu vopna með þrívíddarprenturum, leiddi til gruns um að í undirbúningi væru árásir gegn borgurum ríkisins og stofnunum þess.

Fjórir voru handteknir í sambandi við málið í september í umfangsmiklum aðgerðum víða á höfuðborgarsvæðinu. Þá lagði lögregla hald á tugi af skotvopnum, hálfsjálfvirkum þar á meðal, ásamt þúsundum af skotfærum.

Á upplýsingafundi lögreglu eftir að upp komst um málið var vísað til þess að rætt hafi verið um Alþingi og árshátíð lögreglumanna sem möguleg skotmörk.

Um miðjan október kom síðan fram í fjölmiðlum að mennirnir hefðu rætt sín á milli að myrða Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og sósíalistana Gunnar Smára Egilsson og Sólveigu Önnu Jónsdóttur. Þá hafi þingmenn Pírata einnig komið til tals.


Tengdar fréttir

Úr­skurðaðir í á­fram­haldandi gæslu­varð­hald

Héraðssaksóknari hefur staðfest áframhaldandi gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum sem grunaðir eru um skipulagningu hryðjuverka. Lögmaður annars þeirra ætlar að kæra úrskurðinn til Landsréttar. 

Mögulegt að árásin hefði beinst gegn Alþingi eða lögreglu

Mennirnir fjórir sem grunaðir eru um að hafa haft í hyggju að undirbúa hryðjuverk hér á landi voru allir íslenskir karlmenn á þrítugsaldri en refsing fyrir hryðjuverk er allt að lífstíðarfangelsi. Að sögn lögreglu má ætla að möguleg árás hefði beinst gegn Alþingi eða jafnvel lögreglu. Tengsl við erlend öfgasamtök eru til skoðunar. 

Grunaðir um að undirbúa hryðjuverk

Tveir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald eftir umfangsmiklar aðgerðir lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í dag. Lögreglu grunar að mennirnir hafi haft í hyggju að undirbúa hryðjuverk hér á landi sem áttu að beinast gegn borgurum og stofnunum ríkisins. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×