Innlent

„Farið ofan í vasa fólks sem stendur veikt fyrir“

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Oddný Harðardóttir.
Oddný Harðardóttir. Vísir/Vilhelm

Það er á ábyrgð stjórnvalda að koma í veg fyrir að kostnaðurinn vegna skorts á samningi við sérgreinalækna falli á veikt fólk. Þetta segir þingmaður Samfylkingarinnar og bætir við að margfaldur kostnaður sjúklinga vegna ástandsins sé algjörlega óboðlegur.

Tilkynnt var um það í gær að gjaldskrá Læknastöðvarinnar í Orkuhúsinu, þar sem framkvæmdar eru bæklunaraðgerðir, verði hækkuð á morgun. Ástæðan er sögð sú að sérgreinalæknar hafa ekki verið með samning við Sjúkratryggingar Íslands í fjögur ár. Þá hefur ekki orðið nein breyting á gjaldskránni í þrjú ár. Hækkanir á gjaldskránni eru misjafnar eftir þjónustunni en dæmi eru um að sjúklingar þurfi að greiða 175 þúsund krónur fyrir aðgerðir sem þeir hafa hingað til greitt innan við þrjátíu þúsund fyrir.

Fjallað var um stöðuna sem upp er komin í fréttum Stöðvar 2 í gær.

„Þessi staða er náttúrulega algjörlega óboðleg vegna þess að það eru sjúklingar sem að þurfa að bera kostnaðinn af þessu samningsleysi. Samningar hafa verið lausir í fjögur ár við sérgreinalækna og á meðan er farið ofan í vasa fólks sem stendur veikt fyrir og þarf á sérfræðiþjónustu að halda. Svo er önnur birtingarmynd af þessu samningaleysi eru lengri biðlistar og mér finnst vera augljóst að þetta ástand veldur auknum kostnaði í heilbrigðiskerfinu til lengri tíma. Bæði þarf fólk að bíða og svo eru þeir sem hreinlega hafa ekki efni á að fara til læknis,“ segir Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar en hún situr í velferðarnefnd Alþingis.

Oddný segir það á ábyrgð stjórnvalda að koma í veg fyrir að kostnaðurinn vegna samningsleysis sérgreinalækna falli á veikt fólk. 

„Sjúkratryggingar fara með samningsumboðið eftir forskrift frá heilbrigðisráðherra. Það er ráðherrann sem þarf að sjá til þess að þörfin fyrir þjónustuna sé skilgreind. Að þjónustusamningarnir verði gerðir og hann þarf að sækja fjármuni í fjárlög. En jafnvel þó að það takist ekki að semja þá verða stjórnvöld að koma í veg fyrir það að kostnaðurinn vegna samningsleysisins falli á veikt fólk. Það sér hver maður að það er bara hreinlega til skammar fyrir samfélag sem vill kalla sig velferðarsamfélag.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.