Ástralar sendu Dani heim og jöfnuðu sinn besta árangur

Sindri Sverrisson skrifar
Ástralir fögnuðu ákaft eftir markið mikilvæga frá Mathew Leckie.
Ástralir fögnuðu ákaft eftir markið mikilvæga frá Mathew Leckie. Getty

Ástralía tryggði sér í dag sæti í 16-liða úrslitum HM karla í fótbolta í annað sinn í sögunni með því að vinna Danmörku, 1-0.

Sigurinn tryggði Áströlum 2. sæti D-riðils og þeir fylgja því Frökkum upp úr riðlinum. Það skýrist í kvöld, þegar keppni í C-riðli lýkur, hverjir andstæðingar þessara liða verða.

Ástralar vissu fyrir leik að jafntefli gæti mögulega dugað þeim til að komast áfram og voru fyrst og fremst í því að verjast í fyrri hálfleiknum. Danir komust nokkrum sinnum nærri markinu en vantaði meiri brodd í sóknarleik sinn eins og fyrr í mótinu. 

Staðan var markalaus í hálfleik en á 59. mínútu bárust fréttir af því að Túnis hefði komist yfir gegn Frakklandi, sem þýddi að jafntefli myndi hvorki duga Ástralíu né Danmörku til að komast áfram. Mínútu síðar skoraði Mathew Leckie fyrir Ástrala úr skyndisókn, einn síns liðs.

 

Danmörk skapaði sér lítið af færum til að jafna en upplifði örstutta gleði þegar dæmd var vítaspyrna vegna brots á Kasper Dolberg, en hann var strax í kjölfarið dæmdur rangstæður.

Danir, sem komust í undanúrslit á EM í fyrra, fara því heim en Ástralía spilar í 16-liða úrslitum í annað sinn eftir að hafa komist svo langt í fyrsta sinn á HM 2006.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira