Fótbolti

Hrósar Pulisic fyrir að fórna eistunum fyrir sigurmarkið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Christian Pulisic var sárþjáður eftir að hafa skorað sigurmark Bandaríkjanna gegn Íran.
Christian Pulisic var sárþjáður eftir að hafa skorað sigurmark Bandaríkjanna gegn Íran. getty/Alex Grimm

Ein stærsta stjarna NFL-deildarinnar hrósaði Christian Pulisic fyrir fórnfýsi þegar hann skoraði sigurmark Bandaríkjanna gegn Íran í lokaumferð riðlakeppninnar á HM í fótbolta í Katar.

Pulisic skoraði eina mark leiksins þegar Bandaríkin sigruðu Írani í B-riðli í gær. Markið kom sjö mínútum fyrir hálfleik. Pulisic skoraði þá af harðfylgi en lenti í samstuði við Alreza Beiranvand, markvörð Írans. Hann fór af velli í hálfleik.

Fjölmargir þekktir einstaklingar hrósuðu Pulisic á samfélagsmiðlum. Meðal þeirra var JJ Watt, leikmaður Arizona Cardinals í NFL-deildinni. Honum þótti mikið til fórnfýsi Pulisic koma.

„Að fórna djásnunum fyrir risastórt mark á HM. Það er fórnfýsi. Við þökkum þér,“ skrifaði Watt á Twitter.

Pulisic þurfti að fara á sjúkrahús vegna meiðslanna sem hann varð fyrir eftir samstuðið við Beiranvand. Hann setti samt inn færslu af sjúkrabeði þar sem hann sagði að hann yrði klár í leikinn gegn Hollandi í sextán liða úrslitum HM.

Bandaríkin fengu fimm stig í B-riðli og lentu í 2. sæti hans. Þeir gerðu jafntefli við Wales og England en unnu Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×