Innlent

Fundum lokið hjá ríkissáttasemjara

Eiður Þór Árnason skrifar
Forysta Starfsgreinasambandsins, VR og Landsambands verslunarmanna með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara fyrr í vikunni.
Forysta Starfsgreinasambandsins, VR og Landsambands verslunarmanna með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara fyrr í vikunni. Vísir/Vilhelm

Samningafundum Samtaka atvinnulífsins (SA) með fulltrúum VR, Starfsgreinasambandsins (SGS) og Landssambands íslenskra verslunarmanna lauk á ellefta tímanum í húsakynnum ríkissáttasemjara. Samninganefndir þeirra hafa fundað frá klukkan tíu í morgun en upphaflega stóð til að ljúka fundi klukkan 18. 

Hvorki Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA né Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR vilja tjá sig um stöðu viðræðna að svo stöddu. Boðað hefur verið til nýs fundar SGS og SA í Karphúsinu klukkan 13 á morgun. Fulltrúar Samflots iðn- og tæknifólks funduðu sömuleiðis með SA fram á kvöld og hyggjast hittast aftur klukkan 10. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur þetta almennt verið góður vinnudagur í viðræðum og menn færst nær samningum en áður ef eitthvað er. Áfram er stefnt að því að ná samningum um eða rétt upp úr komandi mánaðamótum og þá er vilji til að funda fram á kvöld á morgun ef til þess þarf. 

Samningar við VR og SGS yrðu leiðandi fyrir aðra

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld sagði Halldór Benjamín að ef samningar næðust við fjölmennustu stéttarfélögin hljóti þeir að verða leiðandi í samningum við aðra um skammtímakjarasamning. Efling hefur sett fram kröfu um skammtímakjarasamning með 56.700 króna krónutöluhækkun auk fimmtán þúsund króna framfærsluuppbótar. Þetta er langt umfram það sem rætt hefur verið við önnur félög samkvæmt heimildum fréttastofu.

Næsti samningafundur félagsins með SA er ekki fyrirhugaður fyrr en á þriðjudag og gæti farið svo að samningar náist við önnur félög en Eflingu innan SGS og jafnvel iðnaðarmenn fyrir helgi. Fari svo gæti orðið erfiðara fyrir samninganefnd Eflingar að ná fram markmiðum sínum. 

Ekki er vitað hvort samninganefnd VR færðist eitthvað nær félögum sínum í SGS í dag en VR er langfjölmennasta verkalýðsfélag landsins.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Reynt til þrautar að ná samningum á næstu dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að samningar við fjölmennustu stéttarfélögin hljóti að verða leiðandi í samningum við aðra um skammtíma kjarasamning. Hann og margir forystumanna verkalýðshreyfingarinnar stefna á að ljúka samningum fyrir mánaðamót en ekki er eining um að það geti tekist.

Al­gjör­lega úti­lokað að samningar náist fyrir mánaða­mót

„Ég held að það sé algjörlega útilokað að samningar náist fyrir mánaðamót, ekki nema menn sem eru í samningaviðræðum fyrir hönd vinnandi fólks geri mistök, hraði ferlinu of mikið og gangi að einhverju sem er að okkar viti væri algjörlega óásættanlegt.“

Stefnt á nýjan kjarasamning fyrir mánaðamót

Forystumenn Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins stefna að því að nýjum skammtímakjarasamningi verði lokið fyrir mánaðamót. Formaður VR, sem sleit viðræðum fyrir helgi, er ekki jafn bjartsýnn og telur tilboð Eflingar frá í morgun eðlilegt í ljósi stöðunnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.