Fótbolti

De Bruyne, Hazard og Vertonghen slógust næstum því eftir tapið fyrir Marokkó

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eden Hazard og Kevin De Bruyne hafa ekki náð sér á strik á HM í Katar.
Eden Hazard og Kevin De Bruyne hafa ekki náð sér á strik á HM í Katar. getty/Pablo Morano

Litlu munaði að slagsmál brytust út í búningsklefa belgíska landsliðsins eftir tapið fyrir Marokkó á HM í Katar.

Belgar töpuðu 0-2 fyrir Marokkóum í F-riðli í fyrradag og bronsliðið frá HM 2018 þarf að sigra Króata í lokaumferð riðlakeppninnar til að komast í sextán liða úrslit.

Fréttir hafa nú borist af því að lykilmenn Belga hafi rifist heiftarlega eftir leikinn. Þetta voru þeir Kevin De Bruyne, Jan Vertonghen og fyrirliðinn Eden Hazard. Romelu Lukaku þurfti að stía þeim í sundur til að ekki kæmi til slagsmála.

Fyrir leikinn gegn Marokkó sagði De Bruyne að belgíska liðið væri of gamalt til að vinna HM. Vertonghen var ekki sáttur með þessi ummæli Manchester City-mannsins og gagnrýndi hann undir rós eftir tapið fyrir Marokkó.

„Sennilega sóttum við ekki nógu vel því við erum of gamlir. Það hlýtur að vera ástæðan, ekki satt?“ sagði Vertonghen sem lék allan leikinn í belgísku vörninni.

Fara þarf aftur til EM 2000 til að finna stórmót þar sem Belgar komust ekki upp úr riðlinum. Belgía, sem var þá á heimavelli, endaði þá í 3. sæti B-riðils og komst ekki í átta liða úrslit.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.