Erlent

Sátu fastir í flug­vélinni í sjö tíma

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Flugvélinni var flogið beint á raflínumastrið.
Flugvélinni var flogið beint á raflínumastrið. AP Photo/Tom Brenner

Flugmanni og farþega lítillar flugvélar sem flogið var á raflínumastur í Bandaríkjunum í gær var bjargað eftir þeir höfðu setið fastir í flugvélinni í sjö tíma. Flugvélin skorðaðist af í mastrinu og sat þar föst.

Slysið átti sér stað í Maryland-ríki Bandaríkjanna. Í frétt CNN segir að síðdegis í gær hafi lögregla og slökkvilið fengið útkall vegna flugvélar sem flogið hafði á raflínur.

Þegar á vettvang var komið var ljóst að flugvélinni hafði verið flogið á raflínumastur, um þrjátíu metra hátt. Þar sat flugvélin pikkföst.

Ráðast þurfti í afar flóknar björgunaraðgerð. Meðal annars þurfti að aftengja raflínurnar og tryggja að ekkert stöðurafmagn væri til staðar. Þá þurfti einnig að festa vélina til að tryggja að hún væri föst á meðan á björgunaraðgerðum stóð. Einnig var mikil þoka á svæðinu, sem auðveldaði ekki aðgerðir.

Slökkvilið og lögregla voru í sambandi við flugmanninn og farþegann á meðan á aðgerðunum stóð. Alls tók um sjö tíma að ná þeim niður úr vélinni.

Voru þeir fluttir alvarlega slasaðir á nærliggjandi sjúkrahús. Allt að 120 þúsund manns voru án rafmagns á nærliggjandi svæði í gær vegna slyssins. Rafmagni var þó að mestu fljótlega komið á eftir að björgunaraðgerðum lauk.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.