Fótbolti

Hetja Þjóðverja fékk tönn inn í sig eins og Jónatan

Sindri Sverrisson skrifar
Niclas Fuellkrug faðmaður af Hansi Flick eftir að hafa séð til þess að Þýskaland ætti enn fína möguleika á að komast í 16-liða úrslit á HM.
Niclas Fuellkrug faðmaður af Hansi Flick eftir að hafa séð til þess að Þýskaland ætti enn fína möguleika á að komast í 16-liða úrslit á HM. EPA-EFE/Friedemann Vogel

Niclas Füllkrug er á allra vörum í Þýskalandi eftir að hafa haldið góðu lífi í HM-þátttöku Þjóðverja með jöfnunarmarki sínu gegn Spáni í Katar í gær.

Füllkrug kom til bjargar seint í leiknum þegar hann jafnaði metin í 1-1 með firnaföstu skoti, eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Þessi 29 ára framherji Werder Bremen hafði fyrir ári síðan ekki spilað eina einustu mínútu fyrir A-landslið Þjóðverja en fékk hringingu frá Hansi Flick eftir að hafa skorað 19 mörk og gefið átta stoðsendingar á síðustu leiktíð. Í vetur hefur hann svo skorað 10 mörk í aðeins 14 deildarleikjum í Þýskalandi.

Füllkrug hefur verið kallaður „Lücke“, sem þýðir „bil“ eða „skarð“ og vísar til bilsins á milli framtanna hans.

Annað tanntengt mál tengist framherjanum því þegar hann var ungur að hefja ferilinn hjá Werder Bremen lenti hann í því á æfingu að tönn liðsfélaga grófst inn í enni hans eftir harðan árekstur.

Atvikið minnir á það þegar Jónatan Magnússon, sem í dag er þjálfari handboltaliðs KA, fékk tönn Tjörva Þorgeirssonar inn í nefið í leik gegn Haukum í hreinum úrslitaleik á Íslandsmótinu í handbolta 2001. 

Tönn Tjörva fannst reyndar ekki í Jónatani fyrr en mörgum mánuðum seinna en Füllkrug var mun heppnari.

„Þetta var klikkun,“ sagði Füllkrug um málið á vef Bundesligunnar fyrir nokkrum árum. „Þetta var mjög hættulegt vegna sýkingarhættu. Við urðum báðir að fara á sjúkrahús en sem betur fer var hægt að laga þetta allt og hreinsa til,“ sagði Füllkrug.

Jónatan komst á endanum í skurðaðgerð og losnaði við tönn Tjörva tæpu ári eftir að hafa fengið hana í nefið, en hún fannst á röngtenmynd eftir að upp kom sýking í nefinu. Tjörvi fékk svo á endanum tönnina senda í pósti.

Sigur dugar ef að Spánn hjálpar

Þrátt fyrir stigið sem Füllkrug tryggði Þjóðverjum eru þeir í neðsta sæti E-riðils fyrir afar spennandi lokaumferð á fimmtudaginn. Örlögin eru í þeirra höndum og þeir komast áfram með sigri gegn Kosta Ríka ef að Spánn tapar ekki fyrir Japan. 

Ef Spánn tapar fyrir Japan þarf Þýskaland að vinna risasigur gegn Kosta Ríka, með allt að 7-8 marka mun ef Japan vinnur Spán aðeins með eins marks mun.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.