Fótbolti

Belgíska pressan harðorð: „Getur einhver hrist De Bruyne til lífsins?“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin De Bruyne náði sér ekki á strik gegn Marokkó, ekki frekar en aðrir leikmenn Belgíu.
Kevin De Bruyne náði sér ekki á strik gegn Marokkó, ekki frekar en aðrir leikmenn Belgíu. getty/David S. Bustamante

Fjölmiðlar í Belgíu fóru ófögrum orðum um frammistöðu belgíska landsliðsins gegn Marokkó á HM í Katar í gær. Kevin De Bruyne fékk sérstaklega að finna fyrir því.

Belgar töpuðu leiknum, 0-2, og eiga á hættu að komast ekki í útsláttarkeppnina. Belgíska liðið var ekki skugginn af sjálfum sér í leiknum og frammistaða De Bruynes þótti sérlega döpur. Í De Standaard sagði meðal annars: „Getur einhver hrist De Bruyne til lífs?“

Í umfjöllun blaðsins sagði að De Bruyne hafi ekki sýnt neina leiðtogahæfni og hvatt samherja sína áfram. 

Fyrir leikinn gegn Marokkó sagði hann að Belgía ætti ekki neina möguleika á að vinna HM þar sem liðið væri alltof gamalt. Þá sagði hann að þeir ungu leikmenn sem hafa komið inn í belgíska liðið að undanförnu séu ekki jafn góðir og þeir sem kvöddu eftir HM 2018 þar sem Belgía endaði í 3. sæti.

Belgía er með þrjú stig í F-riðli og þarf sigur gegn Króatíu í lokaumferð riðlakeppninnar til að komast í sextán liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×