Fótbolti

Segir að ummæli Klinsmann um íranska liðið sé „svívirðing við fótbolta“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Carlos Queiroz lætur yfirleitt vel í sér heyra á hliðarlínunni.
Carlos Queiroz lætur yfirleitt vel í sér heyra á hliðarlínunni. Ian MacNicol/Getty Images

Carlos Queiroz, þjálfari íranska landsliðsins í fótbolta, segir að ummæli fyrrum knattspyrnumannsins Jürgen Klinsmann um liðið séu „svívirðing við fótbolta.“

Klinsmann var í setti hjá BBC eftir 2-0 sigur Íran gegn Wales á HM í Katar síðastliðinn föstudag og talaði þá um menningu íranska liðsins.

„Carlos passar vel inn í þetta landslið og þeirra menningu. Honum mistókst í Suður-Ameríku með Kólumbíu og mistókst svo að komast á mótið með Egyptalandi. Síðan tekur hann við Íran, þar sem hann vann lengi, rétt fyrir heimsmeistaramótið,“ sagði Klinsmann.

„Þetta er ekki tilviljun. Hvernig þeir spila er hluti af menningunni.“

„Þeir atast í dómaranum. Þeir atast í línuverðinum og fjórða dómaranum og eru stanslaust að ræða við þá. Það voru mörg dæmi um þetta sem við sáum ekki endilega í leiknum. Svona er þeirra menning, þeir reyna að koma þér úr jafnvægi.“

Ummæli Klinsmann hafa farið misvel í fólk og margir sem saka leikmanninn fyrrverandi um rasisma.

Queiroz hefur hins vegar svarað Klinsmann fullum hálsi á Twitter-síðu sinni þar sem hann sakar Þjóðverjann meðal annars um að grafa undan þeirri vinnu sem unnin hefur verið í írönskum fótbolta.

Þá hefur Queiroz einnig boðið Klinsmann að kíkja á æfingu hjá íranska liðinu svo hann geti sjálfur séð hversu hart liðið leggur að sér og læra um landið og fólkið sem þar býr.

„Það skiptir engu hversu mikið ég virði það sem þú gerðir á vellinum, þessi ummæli þín um íranska menningu, íranska landsliðið og leikmenn mína er svívirðing við fótboltann,“ skrifaði Queiroz meðal annars á Twitter.

Ummælin tekin úr samhengi

Klinsmann hefur þó aðeins dregið í land varðandi ummælin og segir þau tekin úr samhengi. Hann segist vilja ræða við þjálfarann til að lægja öldurnar í þessu máli.

„Það voru nokkur ummæli sem ég lét falla sem voru algjörlega tekin úr samhengi. Ég ætla að reyna að hringja í hann til að lægja öldurnar,“ sagði Klinsmann við breska ríkisútvarpið, BBC.

„Ég hef aldrei gagnrýnt Carlos eða bekkinn hjá Íran. Svo voru einhverjir sem héldu að ég væri að gagnrýna dómarann af því að hann gerði ekkert í hegðun þeirra á bekknum.“

„Það eina sem ég gerði var að lýsa því hversu miklar tilfinningar þeir sýna þegar þeir spila, sem er í raun aðdáunarvert að einhverju leyti. Allur bekkurinn lifir sig inn í leikinn. Þeir hoppa upp og niður og Carlos er mjög ástríðufullur þjálfari. Hann er stanslaust á hliðarlínunni að reyna að gefa leikmönnum skilaboð og aukna orku,“ sagði Klinsmann að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.