Fótbolti

Aðstoðarþjálfarinn fær traustið og tekur við Bournemouth

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gary O'Neil fær það verkefni að halda Bournemouth í deild þeirra bestu.
Gary O'Neil fær það verkefni að halda Bournemouth í deild þeirra bestu. Charlie Crowhurst/Getty Images

Gary O'Neil hefur samið við Bournemouth um að taka við sem aðalþjálfari liðsins í ensku úrvalsdeildinni til ársins 2024.

Það er félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sem fullyrðir þetta á Twitter-síðu sinni, en O'Neil tók við sem bráðabirgðastjóri liðsins eftir að Scott Parker var látinn fara eftir aðeins fjóra leiki á tímabilinu.

Liðið vann sinn fyrsta leik á tímabilinu undir stjórn Parker, en tapaði svo næstu þremur með markatölunni 16-0. Eftir 9-0 tap gegn Liverpool lét Parker óánægju sína varðandi innkaupastefnu félagsins í ljós og var í kjölfarið rekinn.

Aðstoðarþjálfarinn O'Neil tók þá við stjórnartaumunum og hefur gengi liðsins batnað til muna eftir það. Síðan hann tók við hefur liðið unnið þrjá deildarleiki, gert fjögur jafntefli og tapað fjórum. Bournemouth situr nú í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 16 stig eftir 15 leiki, þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið.

O'Neil var ekki sá eini sem kom til greina til að taka við starfinu. Argentínumaðurinn Marcelo Bielsa, fyrrverandi knattspyrnustjóri Leeds, var einnig sagður í viðræðum við félagið, en ef marka má Romano er O'Neil nú að landa starfinu.

Uppfært

Bournemouth hefur nú staðfest fregnirnar og O'Neil hefur skrifað undir 18 mánaða samning með möguleika á eins árs framlengingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×